144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[12:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur verið kölluð ríkisstjórn ríka fólksins. Ríkisstjórn sem skipuð er af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki hefur verið kölluð ríkisstjórn ríka flokksins. Ýmsum stjórnarliðum hefur þótt vont að hlusta á þessa nafngift, sérstaklega þeim framsóknarmönnum sem enn aðhyllast hugsjón um samvinnu og velferð. En þegar horft er á aðgerðir ríkisstjórnarinnar er ómögulegt annað en að samþykkja að nafngiftin sé sanngjörn.

Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hún lækkaði veiðigjöldin, hún lækkaði auðlegðarskattinn, og skuldaleiðréttingin fer að stórum hluta til fólks sem þarf ekki á henni að halda. Við erum að tala um útgerðina, sem hefur sjaldan eða aldrei búið við eins góð rekstrarskilyrði, og við erum að tala um ríkasta fólkið í landinu og síðan skuldaleiðréttingu sem fer að stórum hluta til fólks sem stendur vel undir skuldbindingum sínum. En leigjendur er þar skildir eftir, sem þó hafa greitt leigu samkvæmt verðtryggðum samningum, og þar er oftar en ekki okkar fátækasta fólk.

Þegar spurt er um skuldaleiðréttinguna, af hverju í ósköpunum ekki sé horft fyrst og fremst á þá sem keyptu á verstum tíma og þar sem verðið á íbúðum var hæst og vextir hæstir, af hverju aðstoðinni sé ekki beint þangað, er svarið hjá stjórnarliðum: Það er vegna þess að það var gert svo mikið fyrir þá sem voru með lítið handa á milli á síðasta kjörtímabili, nú er komið að hinum, nú er komið að ríka fólkinu. Þess vegna renna peningar, styrkir og afslættir til þess hluta samfélagsins.

Á sama tíma er skattur hækkaður á nauðsynjar. Virðisaukaskattur á matvæli var hækkaður. Að vísu var óhollusta lækkuð vegna þess að vörugjöldin á sykraðar matvörur voru tekin af, en nauðsynjar hækkaðar. Skerðing á atvinnuleysisbótatímabilinu um sex mánuði fór fram núna um áramótin og jöfnun örorkubyrði á að taka af í áföngum. Svo var framhaldsskólunum lokað, fjöldatakamarkanir í framhaldsskólum þar sem nemendur sem eru orðnir 25 ára eiga ekki að fá að fara í bóknám. Þetta er allt í sparnaðarskyni, þetta er allt gert í sparnaðarskyni.

Þeir sem græddu á falli krónunnar eins og útgerðir og útflutningsgreinar, fá bætur og afslætti en það á að hala inn hagræðingu, fá peninga í ríkissjóð með því að stytta bótatíma til langtímaatvinnulausra. Og núna, virðulegur forseti, á að gera enn betur og setja í lög ákvæði um skerðingar á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Þegar atvinnuleysisbótatímabilið var stytt, og ríkissjóður græddi milljarð á þeirri aðgerð, var um leið ljóst að hluti af vandanum færi yfir til sveitarfélaganna, þeim mundi fjölga sem færu þá á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. En það er ekki fyrr búið að stytta bótatímann en fram kemur frumvarp um að heimila skerðingar hjá sveitarfélögunum og það sjálfsagt til þess að koma til móts við þær byrðar sem ríkið var að setja yfir á sveitarfélögin með því að skerða bótatímabilið til atvinnuleysisbóta.

Virðulegur forseti. Þetta eru alvarleg tíðindi og það er mjög mikilvægt að horfa á þetta í þessu samhengi. Ríkisstjórn ríka fólksins gengur alla leið, hún gengur alla leið. Það eru milljarðar sem fara til ríkasta fólksins í samfélaginu og á móti er þrengt að þeim fátækustu. Þetta er ekki aðeins hægri stefna sem gengur allt of langt heldur leyfi ég mér að segja að í því felist mannvonska og skilningsleysi á því hvað það er að vera fátækur og þurfa að leita á náðir samfélagsins eftir framfærslu.

Nýlega hefur komið út skýrsla hagfræðinga OECD þar sem fjallað er um jöfnuð og ávinning þess ef jöfnuður er aukinn í samfélögum. Æ fleiri hagfræðingar stíga fram og segja að það sem löndin eigi að gera sé að vinna að auknum jöfnuði og þá um leið komi inn alls konar ávinningar. Fólki líður betur, það verður heilbrigðara, það verður sáttara í samfélaginu og mikill ávinningur fylgir.

Það varð hér mikil misskipting og ójöfnuður hafði vaxið mikið á árunum fyrir hrun. Þegar allt hrundi jókst jöfnuður. Það sem er að gerast núna er að ójöfnuður og misskiptingin eru að aukast, og með aðgerðum ríkisstjórnarinnar mun það gerast hratt og örugglega. Þetta er gert á Íslandi þar sem við erum nýbúin að krafsa okkur upp úr fordómalausum aðstæðum og ættum frekar að vera að byggja upp í anda jöfnuðar, en þá er aftur farið í sama farið og nú á að taka á því. Í þeim anda er það frumvarp sem við ræðum hér.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór ágætlega yfir það í ræðu sinni hvað þetta þýðir í fjárhæðum og ég vil rifja þann hluta ræðu hennar upp. Hún benti á að í Reykjanesbæ er fjárhagsaðstoðin upp á 129.766 kr. Það er fjárhagsaðstoðin sem er í boði. Með þessu frumvarpi er heimilað að helminga þá fjárhæð við tvo mánuði í senn og sérstaka aðstoð má afnema eða helminga í sex mánuði. Það er verið að tala um að fólk sem þarf á aðstoð við framfærslu að halda hjá sveitarfélögunum, það er leyfilegt að helminga tæplega 130 þús. kr. sem þýðir þá 65 þús. kr. á mánuði.

Hvað er verið að gera hér, virðulegur forseti? Hverjir eru það sem eru á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga? Við þekkjum tölur úr Reykjavík þar sem stærsti hlutinn er einstæðar mæður. Við höfum talað hér, bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar, um alvarleika þess hversu mörg börn búa við fátækt á Íslandi. Og við erum að bæta í og gera enn betur á því sviði. Þetta er til skammar.

Í Vestmannaeyjum er fjárhagsaðstoðin upp á 145.473 kr. á mánuði en í Reykjavík 174.952 kr., sem er besta aðstoðin sem hægt er að fá á vegum sveitarfélaganna. Auðvitað á að fara þá leið að hvetja fólk áfram en ekki að hóta því með enn meiri fátækt og enn meiri vandræðum. Virðulegur forseti, við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um grunnöryggisnetið, við erum að tala um aðstoð við fólk sem getur ekki leitað annað. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni eru lögin um félagslega aðstoð frá árinu 1991 hugsuð til þess að skapa öryggi og nauðsynleg skilyrði til þess að einstaklingur fái lifað og dafnað eðlilega í samfélagi við aðra. Það er andi laganna.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir las upp nokkrar markmiðsgreinar laganna áðan og það sem boðað er í þessu frumvarpi er í algjörri andstöðu við það. Við erum því að tala um að verið er að gera breytingar á lögum um fjárhagsaðstoð frá 1991 sem samræmast ekki anda þeirra laga. Hv. velferðarnefnd verður að skoða þau mál í því ljósi.

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað tekið undir að mikilvægt sé að stuðla að meira samræmi á milli sveitarfélaga hvað fjárhagsaðstoð varðar og sjálfsagt að fara í þær breytingar. En að heimila skerðingar og festa í lög en setja ekki upp nein viðmið í lögunum heldur heimila ráðherra að setja í reglugerð eitthvert viðmið sem sveitarfélögin mega, ef þeim sýnist svo, fara eftir, hvað er það? Hugsunin í því hlýtur að vera þá sú að fyrst ríkið var að skerða tímabil sem fólki er mögulegt að vera á atvinnuleysisbótum og hluti af þeim kostnaði lendir á sveitarfélagi þurfi að gera eitthvað fyrir sveitarfélögin. Það er ekki verið að hugsa í anda laganna sem nú er verið að breyta.

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. velferðarnefnd fari vel yfir þessi mál. Ég skil vel að sveitarfélög, þar sem fjárhagsaðstoðin hefur margfaldast, líti til slíkra laga og hugsi með sér að slík breyting muni það gera þeim auðveldara að reka sveitarfélögin, en sú hugsun má ekki verða ofan á. Frekar á að setja meira og styrkja sveitarfélögin til þess að taka á málunum, setja upp virkniúrræði og hvatningarleiðir fyrir fólk sem er í þessari erfiðu stöðu. Það er enginn í þeirri stöðu að gamni sínu. Sjálf hef ég rekið sveitarfélag og hef horft upp á fólk stíga þau þungu skref að biðja um aðstoð. Þetta frumvarp má ekki samþykkja eins og það er, því að það ber með sér mannvonsku.