144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[17:58]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að við virðum sveitarfélögin og sjálfstæði þeirra. Samt held ég að það sé mikilvægt, og þá í samtali við Samband íslenskra sveitarfélaga, að við tryggjum að það sé sem mest samfella og sem jafnast framboð og að stig þjónustunnar sé jafnt í öllum sveitarfélögum.

Þegar ég minntist á kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga var ég í raun alveg opinn fyrir útfærslum á þeim leiðum. Mér finnst aðalatriðið að við náum að tryggja þjónustuna — og nú er ég aftur kannski farinn að tala fram fyrir tilraunaverkefnið og inn í framtíðina — og náum sem best að halda utan um raunverulega þörf. Það getur vel verið, eins og mig og fleiri grunar, að þörfin sé það mikil að það geti kostað mikla innspýtingu og þá finnst mér ekki óeðlilegt að hugsa að það geti orðið alla vega tímabundið verkefni ríkisins að koma sérstaklega myndarlega inn í það, en það er kannski meiri framtíðarmúsík.

Ég held að það sé mikilvægt, og beini því til nefndarinnar, að hugsa þetta ekki bara út frá því að þetta sé eins og hver önnur þjónusta sem lendi í sömu biðröð eftir krónunum heldur að við tökum sérstaklega tillit til mannréttindavinkilsins (Forseti hringir.) og séum opin fyrir því að hleypa þessu máli fram fyrir.