144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

lánveiting Seðlabanka til Kaupþings.

[15:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Fyrir helgi féll stórmerkilegur dómur í Hæstarétti og mjög afdráttarlaus þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að lögbrot hafi átt sér stað hjá Kaupþingi á haustmánuðum 2008. Ekki þarf að rekja efni dómsins en það blasir við af þessu tilefni að jafnvel þó að langt sé liðið frá hruninu er samfélaginu, a.m.k. er það mér ofarlega í huga, mjög hollt að leiða til lykta ýmis mál sem þóttu benda til lögbrota í aðdraganda hrunsins og eftirleik hrunsins. Það er gott að fá dóm og það er gott að menn þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna, gott að fá upplýsingar upp á yfirborðið.

Það er eitt mál, sem tengist líka Kaupþingi og tengist Seðlabankanum, sem hefur þvælst fyrir og ekki verið leitt til lykta, þvælst fyrir í umræðu hér í þingsal — við höfum ekki fengið, þó að þingnefndir hafi kallað eftir því, efnisatriði málsins — og það er mjög umdeilanleg lánveiting Seðlabanka Íslands til Kaupþings rétt áður en Kaupþing varð gjaldþrota, þrautavaralán, þar sem gjaldeyrisvarasjóðurinn að stórum hluta til var veittur að láni til Kaupþings gegn veði sem síðan skilaði ekki því sem það átti að skila og þjóðarbúið, hið opinbera, opinberir sjóðir, urðu fyrir líklega um 40 milljarða kr. skaða af þessari lánveitingu. Ýmislegt bendir til þess að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum, verklagsreglum bankans, í þessu ferli þegar Seðlabankinn veitti Kaupþingi, í aðdraganda gjaldþrots Kaupþings, (Forseti hringir.) þrautavaralán.

Af þessu tilefni, þegar dómar eru að falla, langar mig að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki ástæða til þess að öll kurl (Forseti hringir.) komi til grafar í þessu máli? Er ekki ástæða til þess til dæmis að (Forseti hringir.) símtal þáverandi forsætisráðherra og þáverandi seðlabankastjóra um þessar lánagerðir verði birt?