144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

niðurstaða skýrslu um endurreisn bankanna.

[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var okkur kynnt niðurstaða hv. þm. Brynjars Níelssonar sem hafði verið falið, af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að gera athugun á ásökunum sem settar höfðu verið fram varðandi skil milli nýju og gömlu bankanna. Sú niðurstaða liggur fyrir og felur í sér að að hans áliti hafi ekki verið beitt svikum eða blekkingum til hagsbóta fyrir erlenda kröfuhafa, ekki farið á svig við lög. Hann bendir á að skuldastaða ríkisins væri nokkur hundruð milljörðum verri ef upphafleg leið hefði verið farin og þjóðin væri ófær um að afla gjaldeyris til greiðslu útgefinna skuldabréfa til slitabúanna og þar af leiðandi hefði áhætta ríkisins af þeirri leið sem upphaflega var ætlunin að fara verið umtalsverð.

Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið djúpt í árinni varðandi þetta mál og hefur sagt í viðtölum við Morgunblaðið að ásakanirnar gefi sterklega til kynna að menn hafi gengið mjög langt í að snúa við niðurstöðu sem komin var sem hefði verið miklu hagstæðari almenningi í þeim eina tilgangi að þóknast kröfuhöfum bankanna.

Hæstv. forsætisráðherra sagði jafnframt í viðtali við Bylgjuna að það væri við fyrstu sýn býsna sláandi að sjá hversu langt menn gengju, ekki aðeins í því að líta fram hjá tækifærinu til að vinna í þágu almennings, heldur að koma í veg fyrir að tækifæri yrði nýtt — þegar meira að segja Fjármálaeftirlitið er búið að ganga frá stofnsamningum inn í bankana að menn fari þá í að vinda ofan af því, menn hafi fundið leiðir til að fara fram hjá neyðarlögunum, sagði hæstv. forsætisráðherra líka. Hann var spurður: Eru það ráðherrar og opinberir starfsmenn sem þar hafa verið að verki? Já, það lítur út fyrir það, sagði hæstv. forsætisráðherra, og sagði að þinginu bæri að láta fara fram rannsókn á þessu og hann muni ganga eftir því að það verði gert.

Í ljósi þessara stóru orða hæstv. forsætisráðherra og stórra orða þingmanna Framsóknarflokksins um þetta mál hér á síðustu vikum vil ég því spyrja hæstv. forsætisráðherra hver afstaða hans sé í málinu þegar fyrir liggur skýrsla hv. þm. Brynjars Níelssonar.