144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

rannsókn á endurreisn bankanna.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er ekki að boða rannsóknir í stíl við þær rannsóknir sem síðasta ríkisstjórn stóð fyrir eða boðaði og átti að fela í sér að refsa mönnum fyrir pólitískar ákvarðanir. Ég er bara að tala um að menn læri af reynslunni, dragi það fram í dagsljósið að þarna voru gerð mistök svoleiðis að menn geti þá unnið málin öðruvísi ef upp koma sambærilegar aðstæður síðar. Það hlýtur líka að vera ekki bara réttlætanlegt heldur mikilvægt að mati hv. þingmanns að þegar um svona mikla hagsmuni er að ræða — það liggur fyrir og þarf enga rannsókn til þess, það er hægt að glöggva sig bara á skýrslu fyrrverandi fjármálaráðherra eins og ég nefndi áðan — hlýtur það að vera tilefni til að leggja mat á þær ákvarðanir sem þýða núna, miðað við uppgjör stöðunnar eins og hún er í dag, að nýju bankarnir hafa hagnast um um það bil 300 milljarða (Forseti hringir.) frá því að þeir voru stofnaðir með þessum hætti, en almenningur hefur ekki fengið leiðréttingu sinna mála nema vegna þess að þessi ríkisstjórn gafst ekki upp á því að ná fram því (Forseti hringir.) réttlæti.