144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

útreikningur skuldaleiðréttingar og frestun nauðungarsölu.

[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er að fá símtöl þessa dagana og tölvupóstsskeyti áhyggjufulls fólks sem stendur frammi fyrir því að það er ekki búið að fá endanlega úr skorið um útreikninga á leiðréttingunni sem ríkisstjórnin setti í gang. Nú rennur fresturinn á nauðungarsölu sem við samþykktum hérna í haust, 7. mál í þinginu, út 3. mars. Eins og kom mjög skýrt fram í nefndinni var áætlað að þessi útreikningur væri kominn fram í lok september og það þyrfti ákveðinn tíma, fram til 1. mars til að ljúka öllu, klára útreikninga ef einhver vafaatriði væru o.s.frv. Ef útreikningarnir yrðu kláraðir í lok september myndi ferlinu ljúka 1. mars. Nú voru útreikningarnir ekki kláraðir fyrr en 11. nóvember og enn þá er fólk sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála en var farið af stað í stöðvun nauðungarsala sem hæstv. innanríkisráðherra þá, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fór í fyrir rúmu ári þegar hún stöðvaði allar nauðungarsölur. Þetta var gert á grundvelli þess að fólk hefði sótt um leiðréttinguna og gæti mögulega komið fjármálum sínum á réttan kjöl þegar það væri búið að fá hana. Þetta var markmiðið eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði í fyrirspurn við 1. umr. um málið í haust, með leyfi forseta:

„Þess vegna er þetta hluti af þeirri aðgerð er lýtur að leiðréttingunni og tækifærum fólks til að yfirfara fjármál sín á grundvelli þess. Það var uppleggið í byrjun. Þetta var liður í þingsályktunartillögu sem forsætisráðherra mælti fyrir í upphafi þessa þings.“

Það er ekki búið að tryggja það sem átti að tryggja með þessum lögum og það sem ég vil spyrja ráðherra er hvort ekki sé hægt að gefa frest um einn, tvo mánuði, eftir því sem hennar ráðuneyti metur að þurfi, til að klára þetta með sóma.