144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

stjórnarstefnan.

[15:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og alltaf þegar hv. þingmaður kemur í ræðustól og byrjar að æpa var meira og minna allt sem hann sagði rangt. En ég þakka þó fyrir tækifærið til að fá að ræða árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum vegna þess að hann er umtalsverður og meiri en menn hafa séð á svo skömmum tíma, a.m.k. í mjög langan tíma.

Hagvöxtur á Íslandi frá því að ný ríkisstjórn tók við hefur verið með mesta móti ef litið er til Evrópulanda og útlit fyrir að á næsta ári verði hann líklega sá mesti í Evrópu. Við gætum jafnvel farið fram úr Noregi hvað það varðar. Frá því að ný ríkisstjórn tók við hafa orðið til milli 6 og 7 þús. ný heilsársstörf á Íslandi. Atvinnuleysi er komið niður í um það bil 3%. Verðbólgan hefur ekki haldist jafn lág jafn lengi í áratugi. Hvað varðar hins vegar vaxtastefnu Seðlabankans verður hv. þingmaður að beina fyrirspurnum til þeirrar stofnunar.

Skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur ráðist í hafa verið til þess hannaðar að koma sérstaklega til móts við millitekjufólk og fólk með lægri tekjur og þannig voru breytingar á gjöldum og sköttum sem innleiddar voru með síðasta fjárlagafrumvarpi til þess fallnar að bæta sérstaklega stöðu fjögurra lægstu tekjutíundanna eins og kom fram og var rökstutt með skýrum útreikningum í gögnum fjármálaráðherra með fjárlagafrumvarpinu.

Hvað varðar misvísandi málflutning veit ég ekki hvað hv. þingmaður á við. Fullyrðingar hans voru líka rangar. Lee Buchheit er þannig ekki í samningaviðræðum við kröfuhafa og ég kannast ekki við að hæstv. fjármálaráðherra hafi haldið því fram að sú væri raunin. Á heildina litið getur hv. þingmaður leyft sér að gleðjast yfir því að sú mynd sem hann reyndi að draga upp hér áðan er alröng.