144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Mér fannst hann reyndar gera frekar lítið úr þessu máli. Ég held að þetta sé miklu stærra mál og geti haft mjög mikil efnahagsleg áhrif innan Evrópusambandsins á einstök ríki í plús og mínus. Ég geri ráð fyrir því að fólk geti sótt sér þjónustu til annarra ríkja innan Evrópusambandsins þegar biðlistar eru langir og þjónustan ekki veitt nema eftir dúk og disk og þetta geti orðið til þess að heilsuþjónusta eða heilsuferðamennska fari í gang.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið kannað í ráðuneyti hans hvort þetta leiði til þess að ferðamennska þar sem menn leita sér þjónustu geti verið Íslendingum búbót, þ.e. að hingað komi margir ferðamenn til að leita sér lækninga á ýmsum sviðum þar sem við erum með styttri biðlista og stöndum kannski framarlega, ég nefni til dæmis skipti á augasteinum, og hins vegar að Íslendingar fari til útlanda sæki þar þjónustu þegar hér eru langir biðlistar og þeir fá ekki þjónustuna strax.