144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt — þegar svo vel ber í veiði að hér er hæstv. utanríkisráðherra við umræður um EES-mál einmitt í þeirri viku þegar flokksfélagar hans margir hafa verið að gefa út yfirlýsingar um bæði EES-tilskipanir og um að Framsóknarflokkurinn sé orðinn pirraður á EES, ég held að ég fari rétt með orð samþingmanna hæstv. ráðherra — að spyrja hann hvort það eigi líka við um utanríkisráðherra, hvort hann sé orðinn pirraður á EES. Ég vil líka spyrja um þau sjónarmið hæstv. umhverfisráðherra, um að milda beri í þýðingum ákvæði tilskipana Evrópusambandsins, hver sjónarmið ráðherrans séu um þá skoðun umhverfisráðherra, sem mér skildist að hún hefði falið embættismönnum umhverfisráðuneytisins að framfylgja á einhvern hátt. Ég spyr hvort hann telji það eðlilegt og hvort það sé eitthvað í textanum í þessari tillögu eða þeirri sem hér var til umfjöllunar áðan sem hafi í þýðingum á vegum utanríkisráðuneytisins verið mildað með einhverjum hætti áður en það var borið hér inn í þingið. Eða er ráðherrann kannski, eins og hv. þm. Karl Garðarsson, heyrðist mér, öndverðrar skoðunar, verandi líka í þingflokki Framsóknar, og telur mikilvægt að jafnræðis sé gætt og að þessar tilskipanir séu innleiddar með eðlilegum hætti en ekki eitthvað sérstaklega mildaðar?