144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:43]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Ég þakka aftur spurningarnar og styð hugmyndina um að fá Skipulagsstofnun líka á fund. Ég held að ekki sé vanþörf á því.

Ég ræddi það líka í ræðu minni að vinnufyrirkomulaginu í kerfisáætluninni ætti að svipa til samgönguáætlunar eða einhvers álíka fyrirkomulags þar sem við endurskoðum áætlanir með vissu millibili hér á þingi. Tímarnir breytast og áætlanir líka og við þurfum auðvitað að vera í takt við tímann.

Það hræðir mig svolítið mikið að með stimplunarkerfisáætlun séum við búin að afgreiða málið. Þá er ráðherra einráður samkvæmt reglugerðum um valkostagreiningu á línuleiðum. Við munum ekki taka afstöðu til þess framar hér nema undir einhverjum óformlegum liðum til dæmis hvar línuleiðir eigi að liggja yfir miðhálendið og hvernig þær eigi að vera úr garði gerðar. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að hafa gefið Landsneti og öðrum stofnunum leiðsagnarreglur um kostnað og annað slíkt frá Alþingi til þess að þær geti starfað, um kostnað á línulögnum eða loftlínu.

Hitt er miklu stærra mál sem við erum ekki búin að afgreiða og við eigum ekki að afgreiða með þessu, þ.e. hvar línurnar eiga að liggja, af því að við setjum ekki bara venjulegan verðmiða á það. Þar eru umhverfissjónarmið og annað sem mér er ekki ljóst (Forseti hringir.) hvernig tekið er á í kerfisáætlun.