144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri þessu máli til mikilla bóta ef kerfisáætlunin og þær áætlanir sem unnið er með kæmu til umfjöllunar í þinginu á sambærilegan hátt og þingsályktun um samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun til dæmis, og rammaáætlun, þannig að reglulega væri farið yfir forsendur og tekin opin og lýðræðisleg umræða um það sem hér er á ferðinni. En því miður gerir lagaramminn ekki ráð fyrir því.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að gert er ráð fyrir að miðað sé við, eins og segir í málinu, bæði nýtingar- og biðflokk rammaáætlunar, sem er vægast sagt undarlegt, að menn séu að vinna með fyrir það fyrsta biðflokk, sem hefur ekki verið ákveðið hvað eigi að gera með, hvort fara eigi í nýtingu eða ekki, og því síður með nýtinguna, vegna þess að þar eru mjög margir virkjunarkostir nú þegar, sem ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um að fara í virkjun á, þ.e. eiga eftir að fara í gegnum skipulagsferlið áður en lengra er haldið. Ég held að menn séu svolítið fljótir á sér þar ef menn ætla að fara að miða við þessa tvo flokka.

Það er auðvitað eðlilegt að það haldist í hendur, áætlanir manna, og menn hafi fast land undir fótum og viti nákvæmlega í hvað orka eigi að fara og að búið sé að vinna þær áætlanir almennilega, ekki eins og nú er gert þar sem menn leggja gríðarlega áherslu á að ná að keyra einhverjar virkjanir í gegn og geti síðan selt ódýrt rafmagn þeim sem kaupa vilja. Það er gamaldags atvinnuuppbygging.