144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnrýni mín á þá staðreynd að hér virðist eiga að nýta rammaáætlun sem eitthvert spálíkan fyrir væntanlegar framkvæmdir snýst ekki síst um það að mér finnst hún sýna algjöran misskilning á rammaáætlun og hvernig við byggjum hana upp. Þar er verið að raða niður valkostum og bera þá saman. Ég vitnaði áðan í umsögn minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um þetta. Þetta kemur líka fram í áliti meiri hlutans þar sem þeir benda á að það verði vart talist rökrétt að byggja á þeim atriðum í raunhæfri áætlun.

Hvaða öðrum forsendum er hægt að byggja á? Jú, það er auðvitað hægt að setja niður hvaða kostir eru komnir í nýtingarflokk til hliðsjónar, hvaða framkvæmdir eru á borðinu og annað slíkt. Fyrst og fremst tel ég að ef við ætlum að fara að gera raunhæfa kerfisáætlun þá þarf hún að fá þessa lýðræðislegu umræðu. Mér finnst það vera bara algjör forsenda. Vissulega þurfum við að nota marga þætti við að gera slíka áætlun, en alveg eins og samgönguáætlun tekur hér breytingum í þinginu af því að umsagnir koma inn, og af því að þingið allt fjallar um áætlunina og ólík sjónarmið koma fram frá ólíkum aðilum þá held ég að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um hér.

Í þessum efnum held ég að ef við ætlum að gera kerfisáætlun sem sátt næðist um þá væri raunhæfasta aðferðafræðin til að byggja á lýðræðisleg vinnubrögð. Það er ekki andi þessa frumvarps. Það er hins vegar einfalt að gera breytingar í þá átt á frumvarpinu þannig að Alþingi komi að málinu, aðkoma almennings sé tryggð og fleiri breytur séu teknar inn í gerð slíkrar áætlunar. Ég þykist hins vegar ekki hafa nákvæm svör við því hvernig vinnulag við slíkt ætti að vera. Ég vil aftur á móti hlusta þegar jafn alvarlegar athugasemdir eru gerðar eins og hér hafa komið fram við þetta fyrirkomulag.