144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn þeirra tveggja nefnda, sem eiga að fjalla um málið, fái tækifæri til að sitja saman og ræða málin. Ég held að það sé alveg nóg að setja þann hóp saman. Við þurfum ekkert að standa tímunum saman hér í þingsal. Það er ágætt þversnið af þinginu í þessum tveimur nefndum. En það þarf líka að draga fram öll þau atriði sem koma fram á þessum 200 síðum. Þetta eru ekkert mjög mörg atriði, þetta eru sömu atriðin — enda er þetta ekki stórt frumvarp — sem verið er að gagnrýna af öllum aðilum; draga þau fram og hvaða áhætta felst í því til dæmis að þingið fjalli um þetta.

Það eru sumir sem líta þannig á að Alþingi Íslendinga sé að þvælast fyrir. Ég deili ekki þeirri skoðun. Ég hef ekki upplifað annað hér en að menn vilji koma málum áfram og reyna að leysa þau og beri virðingu fyrir meiri hlutanum á þinginu á hverjum tíma. Það er ekki þess vegna sem menn stoppa.

Ég vil líka vekja athygli á því að mér fyndist mjög athyglisvert og mikilvægt að fá að heyra skoðanir hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra. Við erum að tala þarna um veigamikla málaflokka. Þegar menn fara með málið í gegnum ríkisstjórn og inn í þingið þá fylgir gjarnan sú ræða sem kom frá hæstv. iðnaðarráðherra á sínum tíma, þ.e. að þinginu sé heimilt að breyta málinu. Takið ykkur tíma, ekki vera að efna til ófriðar; leysum málið sameiginlega. Þrátt fyrir þann vilja hæstv. ráðherra hefur það ekki verið gert.

Varðandi sjálfstæði sveitarfélaga tel ég útilokað að taka sjálfstæði af sveitarfélögunum en ég undirstrika að það þarf að vera ferli til að leiða mál til lykta. Ef við erum að tala um mikla hagsmuni gegn takmörkuðum svæðum eða hópum í landinu þarf að vera einhver leið til að leiða mál til lykta.