144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:44]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ræðuna. Hér kom fram hjá hv. þingmanni og formanni atvinnuveganefndar, Jóni Gunnarssyni, að mikil gagnrýni hefði komið frá þingmönnum um að frumvarpið væri illa unnið. Ég vil segja um það að ágætlega var unnið í atvinnuveganefnd Alþingis, en það er þó margt enn óunnið í málinu, þar stendur hnífurinn í kúnni.

Það sem stendur út af að mínu mati er þrennt og mig langar að bera undir þingmanninn hvort hann sé sammála mér um það og hvað við gerum þá í því. Það er að rýna betur í umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun, sem er stofnun sem þarf að vinna með þessi lög og skilur hvorki upp né niður í þeim. Það er kerfisáætlun sem að mínu mati þarf að koma til endurskoðunar og vera hjá þinginu í meira mæli en nú liggur fyrir. (Forseti hringir.) Síðan er það valkostagreining ráðherra, sem mun ráða einn (Forseti hringir.) og sér samkvæmt reglugerð hvar línustæði munu liggja.