144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Miðað við áhuga hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans geri ég ráð fyrir að þeir verði allir við umræðuna til enda í kvöld. Við munum fylgjast með því að þeir verði hér og taki þá væntanlega þátt í umræðunni. (Gripið fram í.) Ég vænti þess sérstaklega að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sem núna fyrst tekur þátt í umræðu um málið yfir höfuð, og þá til að gera athugasemdir við framgöngu annarra þingmanna, taki þátt í umræðunni. Ég vænti þess. Hún segist ekki skilja málflutninginn. Ég er ekkert hissa, ég hef ekki séð hv. þingmann í þingsal meðan umræðan hefur átt sér stað. Það er svolítið seint að koma inn í umræðuna akkúrat núna. Ég hef samúð með því að hv. þingmaður hafi ekki haft ráðrúm eða tækifæri til að setja sig inn í málin en það mun væntanlega ganga hratt ef hún situr hér og tekur þátt í umræðunni í kvöld.

Ég spyr hæstv. forseta: Er eitthvað að frétta af samtölum og samráði sem forseti veðjaði á við sitt mat á stöðunni áðan að mundi nást við umræðuna, að á meðan hann tók ákvörðun um að halda umræðunni áfram og boða til kvöldfundar (Forseti hringir.) gætu menn nálgast hverjir aðra í hliðarherbergi? Er eitthvað að frétta af sáttafundum í þessu máli?