144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

lyklafrumvarp.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt og þarf ekki að hafa mörg orð um það að lyklaleiðin var ein þeirra leiða sem við sjálfstæðismenn töluðum um á síðasta kjörtímabili og var líka hluti af þeim skuldapælingum sem ég ræddi um á flokksráðsfundi árið 2012. Allt var þetta liður í því að leita leiða til að hjálpa skuldugum heimilum. Síðan gerðist það þar að auki að ég sem þingmaður á Alþingi gerði það sem ég gat til að styðja ríkisstjórnina í þeim málum sem urðu til þess að hjálpa heimilunum og það gerði þingflokkurinn í heild sinni.

Í millitíðinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn, og allir flokkar, gengið til kosninga og myndað ríkisstjórn. Ég var ekki í þeirri kosningabaráttu og fjarri pólitísku vafstri á þeim tíma. Síðan fékkst sú niðurstaða í ríkisstjórn, eins og hv. þingmaður þekkir mætavel, að fara ákveðna leið í skuldamálum, svokallaða leiðréttingarleið. Að því stóðum við sjálfstæðismenn og stöndum og höfum unnið samkvæmt því. Þess vegna get ég sagt við hv. þingmann að á þessu stigi er ekkert frumvarp í smíðum í innanríkisráðuneytinu sem snýr að lyklamálum.