144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum TiSA-samningaviðræðurnar og höfum gert það áður í þingsal. Ég ítreka það sem kom fram þá, að ég og við í Bjartri framtíð leggjum mikla áherslu á að í öllum svona viðræðum sé reynt að gæta eins mikils gagnsæis og mögulegt er. Það er ánægjulegt að heyra í ræðu hæstv. ráðherra hversu ágætlega hefur í raun verið haldið utan um þessar viðræður og opnað hefur verið á upplýsingar um þær af hálfu utanríkisráðuneytisins. Almennt vil ég taka undir það að Ísland á mikið undir alþjóðaviðskiptum og samskiptum og viðskiptum við umheiminn og því skiptir miklu máli að Ísland taki þátt í viðræðum um slíkt þegar öll okkar nánustu viðskiptalönd og nágrannar taka þátt í slíkum viðræðum. En það skiptir miklu máli að slíkt sé alltaf gert með það að leiðarljósi að það hafi ekki stórkostleg áhrif og gjörbreyti þjóðfélagsmynd okkar. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra og hv. framsögumanns er hér um að ræða samkomulag, ef af verður, sem er óafturkræft og mun hafa miklar afleiðingar til framtíðar. Því skiptir mjög miklu máli að Alþingi sé mikill þátttakandi í þessum viðræðum, ekki bara á lokastigum (Forseti hringir.) heldur einnig meðan á þeim stendur.