144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[15:52]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja í upphafi máls míns að hornsteinn hagsældar í hverju landi eru viðskipti. Þegar utanríkisviðskipti bætast við gerir hver þjóð það sem hún kann best og gerir best. Það er alveg greinilegt af þeirri þróun sem hér hefur orðið á undanförnum árum að Ísland stendur sig nokkuð vel í þjónustuviðskiptum. Ég starfaði sem ungur maður sem sendill í miðbæ Reykjavíkur og þá voru 25 togarar hér í bæ og fimm stór frystihús. Í dag eru fimm togarar og eitt frystihús, þ.e. samfélagið hefur breyst úr því að vera framleiðslusamfélag í þjónustusamfélag. Það leiðir til þess að hér er verulega hagstæður þjónustujöfnuður upp á 140–150 milljarða. Það kann að vera að sá hagstæði þjónustujöfnuður eigi eitthvað óhagstætt inni í vöruskiptajöfnuðinum, en hér er að minnsta kosti um mikla hagsmuni að ræða og því er eðlilegt og í rauninni sjálfsagt að Ísland taki þátt í viðræðum um frjáls þjónustuviðskipti til að efla hagsæld í heiminum. Utanríkisráðherra hefur gert rækilega grein fyrir því hvað ekki er innifalið í þessum viðskiptum þannig að samfélagsinnviðir eru þar ekki undir, en vissulega kunna þeir að hafa ávinning af þessum þjónustuviðskiptum.

Ég spyr mig oft að því þegar þetta málefni ber á góma: Hver er leyndin? Ég hef hingað til eiginlega haft of miklar upplýsingar í höndum. Hér kem ég í ræðupúlt með einar 40 blaðsíður eftir að hafa aflað mér upplýsinga um TiSA og ég treysti hæstv. utanríkisráðherra fyllilega til þess að leiða þetta mál til lykta og að utanríkismálanefnd verði uppfrædd um málið á hverju stigi.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.