144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[16:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eitt það vitlausasta sem oft er hægt að gera er að hafa leynd um sjálfsagða hluti. Ég minnist þess þegar verið var að semja um Evrópska efnahagssvæðið, þá voru Official Journal, sem eru hin opinberu stjórnartíðindi Evrópusambandsins, stimpluð sem trúnaðargögn í pappírum samningamanna. Einhver slík endaleysa virðist vera í gangi í TiSA-viðræðunum og þess vegna hefur að mínu mati orðið óþarfamoldviðri í kringum þær. Þó ber að hafa í huga að til dæmis Svisslendingar hafa frá upphafi birt áhersluatriði sín og Evrópusambandið hefur líka birt skoðun sína á þessum gögnum. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því mjög vel hvernig samráð hefur verið haft hér á landi við hagsmunaaðila og þá sem koma sérstaklega að þessum málum. Allt um þetta er nú líka á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Það hefði kannski mátt birta það fyrr, ég skal ekki um það segja en það er þá búið að kippa því í liðinn. Ég fagna því hvernig utanríkisráðherra lýsir því hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig.

Ég fagna því líka sérstaklega að hæstv. utanríkisráðherra tekur af öll tvímæli um að hér verði flutt þingsályktunartillaga um málið þannig að þingið komi endanlega að málinu. Svo þarf líka að hafa í huga að utanríkismálanefnd getur hvenær sem er kallað eftir upplýsingum um gang viðræðnanna vegna þess að þetta er náttúrlega meiri háttar utanríkismál þannig að utanríkismálanefnd getur gert þetta. Ég vil segja að endingu að við viljum vera hluti af umheiminum og þess vegna hljótum við að taka þátt í þessum viðræðum.