144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

aðkoma Íslands að TiSA-viðræðunum.

[16:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessu máli þarf að spyrja nokkurra spurninga. Þetta hefur auðvitað verið rætt, væntanlega bæði á vettvangi fyrrverandi ríkisstjórnar þar sem ákvörðun var tekin um að taka þátt í þessum viðræðum, og eins í núverandi ríkisstjórn. Fyrst er auðvitað spurningin: Eiga Íslendingar að vera með í viðræðum af þessu tagi? Í mínum huga er svarið afdráttarlaust: Já. Ég held að það sé jákvætt fyrir Ísland og íslenskt atvinnulíf að Ísland taki þátt í fríverslunarsamstarfi á þessu sviði. Ég held að það sé okkur til hagsbóta og að í því felist miklu fleiri tækifæri en ógnanir. Það er grunnafstaða mín til þessa máls.

Síðan má bæta því við að þau ríki og ríkjasambönd sem leitt hafa þessar viðræður eða borið meginþungann af þeim eru auðvitað líka mestu viðskiptalönd okkar, bæði austan hafs og vestan, þannig að það mundi skjóta nokkuð skökku við ef við tækjum ekki þátt í því samfloti.

Í öðru lagi er eðlilegt að spurt sé í þessu sambandi hvort málsmeðferð í sambandi við þessa samninga sé með einhverjum hætti óeðlileg. Ég tel svo ekki vera. Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið í utanríkismálanefnd og í umræðum í þinginu hefur mér sýnst að hér sé um afar hefðbundinn farveg mála að ræða og ekki ástæða til að gera athugasemdir við það. Ég fagna því hins vegar þegar menn tala um aukið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis og segi fyrir mitt leyti að ég mun beita mér fyrir því að utanríkismálanefnd fylgist vel með þessum málum. Við höfum átt tvo fundi um þau í vetur og eina umræðu í þinginu og mættum vafalaust auka aðkomu okkar að þessu og fögnum því ef gott samstarf næst um það.

Í þriðja lagi segi ég sem svo: Þetta mál mun á endanum koma til þingsins til staðfestingar áður en um nokkrar skuldbindingar verður að ræða (Forseti hringir.) af hálfu Íslands og þá munum við auðvitað taka afstöðu til þess með lýðræðislegum hætti hvort þetta er samstarf sem við eigum erindi í.