144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurnatíma í gær var hæstv. forsætisráðherra spurður um viðhorf sitt til forvirkra rannsóknarheimilda. Þótt ræða hans hafi byrjað ágætlega með orðum um að það þyrfti að stíga varlega til jarðar o.s.frv., lauk þeim samskiptum með hætti sem veldur mér ugg. Hann sagði hluti eins og, með leyfi forseta:

„… hér er ekki verið að tala um það að gefa einhverja opna heimild til að fylgjast með borgurunum. Nei, það mun alltaf þurfa úrskurð þar til bærra yfirvalda, dómsvaldsins í flestum tilvikum, um heimild til slíks eftirlits.“

Virðulegi forseti. 99,31% beiðna lögreglunnar um að hlera eru samþykktar. Það þýðir að í reynd veita dómstólar lögreglunni ekkert aðhald þegar kemur að hlerunum. Það er rétt að minna á að þessi tala mældist rúm 98% í Moldóvu og það þykir svo hátt að Sameinuðu þjóðirnar kölluðu það ekkert aðhald yfir höfuð. Dómsúrskurður er því engin réttarvernd fyrir borgarann á Íslandi, hvorki nú né áður með sama skilyrði fyrir forvirkum rannsóknarheimildum.

Á blaði líta reglur um leit á fólki ágætlega út, þ.e. einstaklingur getur hafnað leit á sér en hins vegar ekki án þess að greiða í leiðinni götu fyrir handtöku. Afleiðingin er sú að lögreglan hótar einfaldlega tilhæfulausri handtöku ef hún fær ekki að leita á þeim sem henni sýnist. Í stuttu máli er lögreglu og dómstólum ekki einu sinni treystandi fyrir þeim heimildum sem þegar eru til staðar.

Í mínum huga er það ekki ábyrgðarverk að taka umræðu um auknar heimildir undir þessum kringumstæðum, hvað þá forvirkar rannsóknarheimildir, heldur þvert á móti fullkomið ábyrgðarleysi. Ég tel ekki við hæfi að þær komi til umtals, hvorki forvirkar rannsóknarheimildir né auknar heimildir lögreglu yfir höfuð, fyrr en í fyrsta falli þegar þessi alvarlegu vandamál hafa verið leyst. Þá fyrst er kominn umræðugrundvöllur, ekki sekúndu fyrr, sérstaklega ekki ef ógnin er mikil og raunveruleg.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.