144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:26]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum nokkuð sammála þarna. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að í frumvarpinu væri mikið verið að fjalla um áhættu og hvernig hægt er að takmarka áhættu í fjármálastarfsemi eins og hægt er og er það eðlilegt, enda er það starfsemi sem hefur sýnt sig vera svo áhættusækin að hún hefur keyrt um koll heilu ríkin og álfurnar.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort það geti ekki verið verulega áhættusamt að heimila breytileg starfskjör þeirra starfsmanna sem annast eiga regluvörslu og eftirlit, þeirra sem eiga að vera íhaldsöflin innan fyrirtækisins og halda aftur af áhættusækni og gæta þess að farið sé að settum reglum.