144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hafa menn meðal annars rætt um breytileg starfskjör, en það mun vera skrifræðisorðið yfir það sem við köllum bónus eða kannski tilraun til að fjarlægja umræðuna þeim neikvæðu hugrenningartengslum sem kvikna þegar bankar og bónusar eru nefndir í sömu andránni. Bónus held ég að ég hafi fyrst kynnst í Hraðfrystihúsi Dýrfirðinga á Þingeyri þar sem við vorum 15 ára guttarnir við hausarann og bónusinn í línunni, þar sem verið var að verka fisk, réðist býsna mikið af því hversu röskir við strákarnir vorum að rífa þorskinn upp úr kössunum og koma honum á hausarann þar sem þeir voru svo afhausaðir og flakaðir. Þeim mun fleiri þorskar sem voru afhausaðir þeim mun hærri varð bónusinn. Í því tilfelli var það til þess fallið að hvetja menn til að vera röskir við þá iðju. En þegar bankar eru annars vegar er mikilvægt að við hér hugum að því að þar sé ekki bónuskerfi sem stuðli að því að viðskiptavinirnir séu flakaðir eða afhausaðir í samskiptum sínum við bankann. Það verður auðvitað að hafa það býsna vel í huga að þannig var það í stórum stíl á Íslandi fyrir aðeins örfáum árum.

Við höfum farið ákaflega varlega í þá umræðu í þjóðfélaginu hvernig að því var staðið, meðal annars vegna þess að þetta er lítið samfélag og náið og ég held að við höfum öll skilning á þeim óförum sem þar urðu og þeim erfiðu aðstæðum sem starfsmenn í mörgum fjármálafyrirtækjum voru settir í. Það breytir ekki þeirri staðreynd að fólki var ráðlagt að grípa til alls kyns ráðstafana sem voru ekki í þess þágu heldur í bankans þágu og starfsfólk hvatt til þess að veita viðskiptavinum slíka ráðgjöf og beita sér við viðskiptavini á þann hátt með alls kyns kaupaukakerfum eða bónusum. Fólk var hvatt til að taka fé út af bankabókum, leggja það inn á einhverja fjármálasjóði þar sem ýmsir töpuðu verulegum verðmætum. Það var líka hvatt til þess að taka út tryggar innstæður sínar og kaupa fyrir hlutabréf, eða grípa með öðrum hætti til ráðstafana í fjármálum sínum sem fyrir þúsundir heimila í landinu hafði algerlega ófyrirsjáanlegar afleiðingar, veðsetja heimili sín til að taka þátt í einhverjum fjármálagjörningum sem viðskiptabankinn þeirra sagði þeim að væru alveg öruggir en reyndust síðan langt í frá vera öruggir.

Ég held að það hafi verið alveg rétt af okkur að fara varlega í að ræða þessa sögu. En mikið af þessari sögu varðar hljóðritun, samtöl starfsmanna fjármálafyrirtækja við viðskiptavini sína, skipulagðar úthringingar í fólk sem átti fé á bók eða skuldlausar eignir. Þess vegna er sú skylda mjög rík á okkur, við umfjöllun um þessar tillögur, að við gætum vel og vandlega að því að ekki sé sett upp óhæfilegt bónuskerfi sem hvetji til rangrar ráðgjafar, 100% bónusar hljóma að minnsta kosti í mín eyru býsna mikið, að að ekki sé talað um 200% eins og mér heyrðist hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vera að vísa til að væri heimilað á öðrum Norðurlöndum, að aðalfundir eða hluthafafundir gætu samþykkt. Ég held að það sé að minnsta kosti til þess fallið að skapa verulega aukna hættu á því að fólk fái verri ráðgjöf en það fær núna í viðskiptum sínum við fjármálafyrirtæki. Það er mikilvægt að fólk geti leitað sérfræðiráðgjafar hjá fjármálafyrirtæki sínu því að flest erum við ekki sérfróð á þessu sviði.

Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vandlega yfir þessa þætti og ég tala nú ekki um hvað varðar bónusa fyrir eftirlitsaðilana. Ég held nú að meðal annars í röðum stjórnarþingmanna hafi í raun komið alveg skýrt fram, það sem af er umræðunni, að það séu hlutir sem menn vilji ekki sjá.

Við erum hér að fjalla um heildarendurskoðun á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja í landinu, fyrsta áfangann í henni. Þá er, held ég, líka mikilvægt að við ræðum stærstu og mikilvægustu efnisatriðin í þeim breytingum sem við þurfum að sjá á fjármálamarkaðnum til þess að hann geti farið að nálgast það að teljast heilbrigður. Því miður er staðreyndin sú að núna, sex og hálfu ári eftir hrun bankanna, er ástandið á fjármálamarkaði fullkomlega óeðlilegt og ekkert bendir til þess að við séum á næstu missirum að fara að sjá neina breytingu þar á. Þar er auðvitað fyrst til að taka það sem nefnt var áðan, í orðaskiptum formanns efnahags- og viðskiptanefndar og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, hygg ég, sem lýtur að hæfi eigenda og eignarhaldi. Það er engin leið til þess að hér séu heilbrigð viðskipti á fjármálamarkaði þegar óhæfir eigendur eru að tveimur af þremur stóru viðskiptabönkunum, að þeir séu enn, sex og hálfu ári eftir bankahrun, í eigu þrotabúa sem enn er ekki fyrirséð með hvaða hætti verði gerð upp og geta á engan hátt talist eðlilegir eigendur fyrir jafn mikilvægar lykilstofnanir í einu efnahagslífi og viðskiptabankarnir Íslandsbanki og Arion banki eru.

Það er tómt mál að tala um að innleiða eðlilegt ástand á fjármálamarkaði fyrr en búið er að stinga á þessu kýli, þá ekki síður vegna hins sem skapar þessar venju fremur óvenjulegu aðstæður, sem verið hefur fylgifiskur þessa óeðlilega ástands, sem er yfirlýsing stjórnvalda um að hér sé ríkisábyrgð á öllum innstæðum í öllum viðskiptabönkum, ekki bara í ríkisbankanum, Landsbankanum, ekki bara í þessum þremur stóru viðskiptabönkum, heldur í öllum innlánsstofnunum í landinu. Það er umhverfi þar sem menn eru í raun bara búnir að segja upphátt að ríkið beri alla ábyrgð á rekstri allra þessara fyrirtækja. Annaðhvort þurfa þá að gilda mjög sérstakar reglur um fjármálastarfsemina, meðan þannig háttar til að ríkisábyrgð er á öllum innstæðum í öllum þessum stofnunum, eða að eftirlit þarf að vera margfalt meira en eðlilegt getur talist. En auðvitað þurfum við fyrst og fremst að losna úr því umhverfi að ríkisábyrgð sé á því ef einhverjum fjárfestum hugnast að setja upp fjármálafyrirtæki og hefja áhætturekstur á því sviði. Það ástand má ekki vara öllu lengur, virðulegur forseti, en nú er. Ég veit að það eru einstaka þingmenn sem hafa hafnað því að þessi ríkisábyrgð sé í gildi af því að út af fyrir sig hefur ekkert verið samþykkt um hana formlega. Á endanum er það þingið sem ræður því hvort hún er til staðar, en þó verður ekki litið öðruvísi á, eftir yfirlýsingar stjórnvalda á undanförnum árum, en að þessi sé veruleikinn, að við séum með einkafyrirtæki í rekstri á áhættusömum fjármálamarkaði sem njóti fullrar ríkisábyrgðar án þess einu sinni að borga krónu fyrir það. Hagnaðurinn er hins vegar verulegur af þessari ríkisábyrgðu starfsemi.

Í tengslum við þetta vil ég segja, við vitum að óhjákvæmilegt er á okkar fjármálamarkaði að eignarhald á tveimur af stóru viðskiptabönkunum af þremur, þ.e. eignarhaldið á Arion banka og Íslandsbanka, mun taka breytingum, vonandi eftir einhvern tíma, hvort sem það er eitt ár, tvö eða þrjú ár sem við þurfum að bíða þess, en meirihlutaeignin í þeim fyrirtækjum mun fara úr höndum þrotabúanna og í hendur annarra aðila. Þar er mjög mikilvægt að almennar leikreglur gildi um það og að vel sé staðið að því ferli og það sé opið og öllum aðgengilegt og gagnsætt. Við höfum vítin til að varast sem er einkavæðingin á Landsbankanum og Búnaðarbankanum á sinni tíð þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skiptu þeim bönkum á milli sín með þeim hræðilegu afleiðingum sem sú pólitíska spilling hafði.

Ég held að það sé líka mikilvægt að við tökum á ný umræðu, sem þá var nokkur, um mikilvægi dreifðs eignarhalds í þessum stóru viðskiptabönkum. Hér fundu menn upp mikið áróðursbragð til þess að skýla hinni pólitísku spillingu sem helmingaskipti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins á Landsbankanum og Búnaðarbankanum voru, sem var kjölfestufjárfestirinn. Steininn tók sennilega úr þegar eitt af skilyrðunum var erlendur fjárfestir í kjölfestuhlutanum og hér dúkkaði upp þýskur einkabanki sem aldrei hefur fengist til að upplýsa hver það var sem stóð á bak við þá aðild bankans að tilboðinu. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum umræðuna um það hvort ekki eigi að setja skorður við því hvað einn aðili getur átt stóran hlut í viðskiptabanka.

Tryggvi Þór Herbertsson tók þetta mál hér upp á síðasta kjörtímabili. Ég hef nokkrum sinnum rætt það við fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktsson. Tíu prósenta mörkin, sem sett voru í Noregi, og áttu auðvitað ekki við um hlut ríkisins — og það kann að vera rétt sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefndi að undanskilja ætti fleiri aðila en ríkið slíku hámarki, svo sem eins og lífeyrissjóðina. Það er þá eitthvað sem má ræða, en ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við setjum einhverjar slíkar skorður inn í lögin um fjármálafyrirtækin, væntanlega 40. gr. um eignarhald. Við höfum svo bitra reynslu af því þegar það er einn ráðandi eigandi fyrir viðskiptabanka, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, held ég hafi verið, orðaði það hér áðan, sem virðist hafa það helst að markmiði að tæma þá. Slík ráðandi staða í lykilstofnun, í stórum viðskiptabanka eins og þessir þrír bankar eru, felur í sér svo gríðarleg völd og svo gríðarlega möguleika á að misnota aðstöðu og svo gríðarlegan freistnivanda þegar erfiðleikar steðja að eða fjármálagjörningar eru annars vegar. Þess vegna hvet ég hv. nefnd til að ígrunda þetta atriði og kynni raunar að flytja breytingartillögu sem að þessu lýtur meðan á meðferð málsins stendur.

Ég held einnig að við þurfum að taka á spurningunni um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka og ég held að aldrei sé betra tækifæri en nú; kannski, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson nefndi, áður en umhverfið fer að breytast, einmitt vegna þess að fjárfestingabankastarfsemin er tiltölulega lítill hluti af stóru viðskiptabönkunum eins og stendur. Þeir væru skaðlitlir að því að skilið væri á milli á þessu stigi. Það gæti verið miklu erfiðara að gera það síðar.