144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því heldur að að einu leyti til eru þessi hvatakerfi í bönkunum eða fjármálaheiminum — við skulum hafa hér með verðbréfadótið og allt það — algjörlega ósambærileg við það sem við Íslendingar þekkjum og kunnum eitthvað á og höfum reynslu af, svo sem í fiskiðnaðinum þar sem að uppistöðu til á við um hópbónusa núna sameiginlegur hvati fyrir línu, keðju sem öll þarf að virka vel og enginn veikur hlekkur má vera í til þess að leggja sig fram. Það sem einkennir þetta í bönkunum og fjármálaheiminum er sú staðreynd að almennt starfsfólk er þar ekkert sérstaklega vel launað og fær ekki bónusa. Þar hefur myndast sú menning, ef menningu skyldi kalla, herra forseti, að þetta sé eitthvað svo merkilegt að stjórnendur og æðstu yfirmenn eigi í fyrsta lagi að vera á ofurlaunum af því að þeir sýsla með peninga og ofan á það hafa himinháa kaupauka. Það verður ekki horft fram hjá þessu eðli þegar við ræðum bónusa eða kaupauka (Forseti hringir.) í fjármálaheiminum sem mér finnst ekki gera það betra að gefa eftir með það.