144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á áhugaverðan hlut sem hefur aðeins borið á góma í umræðu að undanförnu, sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa tjáð sig um, og er staða bankakerfisins í dag, stærð þess og hagnaður. Það er mjög athyglisvert að heyra þessa ráðamenn ræða um þetta eins og valdalausir stjórnarandstæðingar og í raun og veru gagnrýna þetta eins og máttlausir áhorfendur að því í staðinn fyrir að koma með eitthvað handa okkur um það hvernig þeir hyggist takast á við þetta. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að vandamálið sé ekki að íslenska bankakerfið sé sterkt fjármagnað því að það er nú komið á daginn að það kemur sér vel, bæði þegar við innleiðum Basel-reglurnar og eins er það öryggisatriði varðandi afnám gjaldeyrishaftanna. Ég hefði beint sjónum og gagnrýni fyrst og fremst að því að bankarnir skuli fara offari í vaxtamun og töku þjónustugjalda. Það sem á að gagnrýna er auðvitað það að bankarnir skuli þá ekki skila góðri afkomu sinni betur til viðskiptavina sinna. Það er það sem kæmi íslenskum heimilum og fyrirtækjum best.

Mig langaði aðeins að inna hv. þingmann eftir öðru, horfa á kaupaukana, bónusana sem ég kýs að kalla svo því að ég er ekki enn búinn að temja mér hugtakið fína, breytileg starfskjör, horfa aðeins á eðli þeirra eins og við kynntumst þeim í fjármálakerfinu. Maður gefur sér að líklegt sé að þeir verði aftur og þeir eru til æðstu stjórnenda og yfirmanna í bönkunum. Gjarnan eru það karlar, en almennir starfsmenn í bankakerfinu eru því miður ekkert sérstaklega vel launaðir. Hverjir eru það? Jú, þar er mjög hátt hlutfall kvenna. Það er vinkill í þessu sem gleymist líka að horfa til, launasamsetningin í kerfinu. Það er mikill launamunur. Toppar eru gjarnan mjög hátt launaðir eins og það séu einhver ægileg geimvísindi að stjórna banka eða verðbréfafyrirtæki, en almennt starfsfólk ekkert sérstaklega vel. Eigum við ekki að hafa það í huga þegar við erum líka að ræða þessi kerfi?