144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[12:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég segi nú eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að mér þóttu þetta vera nokkuð digrar pólitískar yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra flutti hérna áðan. Í þessum efnum þarf aðstaðan að vera algerlega skýr. Hæstv. ráðherra gat þess réttilega að hinar pólitísku yfirlýsingar voru gefnar við sérstakar pólitískar aðstæður. Hann sagði líka að það hefði verið hárrétt á þeim tíma, enda var það rökrætt í þaula eins og síðar og var algerlega nauðsynlegt á þeim tíma.

Ég rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að á þeim tíma í október eða nóvember 2008 kom upp svipuð umræða og mátti heyra hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal hversu langt ætti að ganga. Ætti þetta að ná yfir allar tegundir innstæðna? Ætti að vera einhver tiltekin hámarksupphæð? Menn rökræddu það út frá kostum og göllum og komust að því að þetta væri rétta leiðin við þessar aðstæður. Ég held að við séum öll sammála um það.

Í þessu efni þarf það hins vegar að vera skýrt. Þegar hæstv. ráðherra segir að núverandi ríkisstjórn hafi ekki séð ástæðu til að ítreka það skilur hann málið eftir í svolitlu limbói. Hitt vil ég alls ekki segja að það kunni ekki að vera komnar nýjar aðstæður sem gera það að verkum að rétt sé að endurskoða þetta. Ég tek til dæmis undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, að það eigi að minnsta kosti að skoða það í ferðalaginu hvort ekki eigi að takmarka þetta með einhverjum hætti.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, af því að það er svo sjaldan sem svona ræflar eins og ég fá tækifæri til að koma í svona umræðu og eiga við hann orðastað um þessi mál: Er nokkuð sem mælir á móti því ef þingið kæmist að þeirri niðurstöðu, hugsanlega undir skýrri, öruggri og traustri forustu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar í efnahags- og skattanefnd, að fara þá leið? Er eitthvað sem mælir á móti því í alþjóðlegum skuldbindingum eða sjáanlegum háskamörkum að menn vildu takmarka þessa ábyrgð með einhverjum hætti?

Svo langar mig að vekja eftirtekt á öðru út frá EFTA-dómstólnum, ég túlkaði alla vega niðurstöðu hans þannig að yfirlýsingar sem gefnar hefðu verið af forustumönnum vægju ekki mjög þungt ef talið væri að þær væru gefnar án þess að það væru beinlínis heimildir til þeirra í réttarkerfi viðkomandi lands. Þannig túlkaði ég niðurstöðuna, hluta af henni og fannst hún dálítið mikilvæg.

Að öðru leyti vil ég segja að menn eiga ekki að tala af léttúð um innstæðutryggingarsjóð. Það er hárrétt sem sagt var áðan, að hann mundi aldrei verja kerfi heillar þjóðar falli, enda liggur það algerlega fyrir að af hálfu Evrópusambandsins var innstæðutryggingakerfið aldrei hugsað til þess að geta varið heilt kerfi. Það var fyrst og fremst hugsað, ásamt mörgum öðrum þáttum, sem partur af varnarneti sem fól meðal annars í sér reglur um yfirtöku banka í erfiðleikum og nauðum til að einangra fall sem kann að henda í bankageiranum frá því að breiðast út. Það var hugsað fyrst og fremst til að slökkva eld þar sem hann kæmi upp og koma í veg fyrir að hann breiddist út um allan skóginn.

Ég vil því ekki taka undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, að innstæðutryggingakerfið væri blöff eða pótemkintjöld. Það hefur sinn tilgang, en geta innstæðutryggingarsjóðs er alltaf takmörkuð. Það liggur algerlega ljóst fyrir að ef sú staða kæmi upp í einhverju Evrópusambandslandanna að þar væri bankakerfi heillar þjóðar að fara undir mundi kannski sjóður heils sambands duga til að styðja við það en ekki mundi ég treysta á það til að koma í veg fyrir að skógareldurinn breiddist út.

Hér á landi höfum við, bæði núverandi ríkisstjórn og síðasta ríkisstjórn, verið að reyna að búa til kerfi sem tryggir að sú staða komi ekki upp sem kom hér upp haustið 2008. Þá kom í ljós að bankakerfið var að eðli til allt öðruvísi en við höfum talið, allt öðruvísi en meira að segja Fjármálaeftirlitið, sem átti þó að vaka og sofa yfir því, hafði gert sér grein fyrir. Það kom í ljós að krosseignatengsl og innbyrðis veðbönd voru með þeim hætti að í raun réttri hefði átt að skilgreina alla bankana sem eina einingu á fjármálamarkaði. Það blasir við þegar maður horfir til baka.

Þegar talað er um að sá sjóður nýtist lítið sem núna hefur verið greitt inn í um tveggja ára skeið er það samt sem áður þannig að hæstv. ráðherra gat um það í ræðu sinni áðan að á síðasta ári hefðu þó greiðslur í hann stækkað hann um 4 milljarða. Maður sér því að á einum áratug er þetta orðinn dálítið drjúgur sjóður sem ætti að geta tekist á við að minnsta kosti það sem við köllum miðlungsfjármálastofnun á íslenskan mælikvarða og hugsanlega getað verkað sem slökkvilið og komið í veg fyrir að sú vá breiddist út. Það frumvarp sem við ræddum hér í þaula síðustu tvo daga er grein af nákvæmlega sama meiði. Það miðar að því að styrkja bankana, gera það að verkum að þeir verði ekki eins og feyskið hrip sem fellur við fyrstu golu. Ég er ekki að segja að það hafi gerst 2008 en það er alveg ljóst að bankarnir þá voru miklu feysknari og gropnari en við gerðum okkur grein fyrir. Frumvörpin sem við höfum verið að rökræða hér og ýmsar leiðir til að styrkja eigið fé þeirra er ein leið, alveg eins og innstæðutryggingarsjóður er ein leið, alveg eins og ýmis önnur lög sem hér hafa verið boðuð og hafa verið lögð fram nú þegar eru viðbrögð okkar við þeirri stöðu sem upp kom 2008 og tjáir sameiginlega viðleitni löggjafans til að skapa umhverfi þar sem minnstar líkur eru á að slík staða geti komið upp aftur.

Þetta var nú það sem ég vildi leggja til þessarar umræðu og ætlaði ekki að draga hana neitt lengur. En mér þykir umræðan forvitnileg og mér finnst gott að hafa hana hér vegna þess að fram undan er mikil umræða síðar á þessu ári um innstæðutryggingar og innstæðutryggingarsjóði, fyrir utan það litla frumvarp sem við sem talað höfum af hálfu stjórnarandstöðunnar höfum lýst stuðningi við ef hæstv. ráðherra telur þörf á því, ég dreg það í efa en það er nú önnur saga, ég fylgi bara forsjá í þeim efnum. Þess vegna finnst mér bara gott að hafa uppi á borðinu þau viðhorf sem hér hafa komið fram. En ég varpa nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra og ef hann treystir sér að svara þeim án þess að hagsmunir ríkisins séu í húfi þætti mér vænt um það. Ég get svo sem lifað við það ef hann kýs að gera það ekki.