144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, nánar tiltekið um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.

Nefndarálitið ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 1010 og vísa ég til þess í aðalatriðum þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Málið var lagt fram 10. september sl. og var rætt á Alþingi 21. október og efnahags- og viðskiptanefnd fékk málið til umfjöllunar. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar þakka gestum og umsagnaraðilum fyrir framlag þeirra.

Með frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Gildandi lög leggja hins vegar fjárfestingar lífeyrissjóða í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga að jöfnu við fjárfestingar í óskráðum verðbréfum. Um verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga gilda þó mikilvægar lagareglur og formreglur sem auka vernd fjárfesta eða eru til þess fallnar. Meiri hlutinn tekur því undir það sjónarmið að eðlilegt sé að flokka verðbréf sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga á keimlíkan hátt og verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamörkuðum, eins og lagt er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur þó einnig eðlilegt að setja fjárfestingum lífeyrissjóða á markaðstorgi fjármálagerninga viss mörk í upphafi, eins og vikið verður að síðar.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að mikilvægasti hluti þeirra reglna sem gilda um upplýsingagjöf á skipulögðum mörkuðum eiga á sama hátt við um markaðstorg fjármálagerninga. Þannig gildir XIII. kafli laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja með sama hætti á markaðstorgi fjármálagerninga og skipulegum mörkuðum.

Vakin var athygli á því í umsögnum um málið að nýr aðili, sem uppfyllir skilyrði laga, getur tekið til við að reka nýtt markaðstorg fjármálagerninga og ekki er sjálfgefið að sá aðili gangi jafn langt og Kauphöll Íslands hefur gert í reglum sínum um First North, sem vikið er að í greinargerð með frumvarpinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á, þótt vakin sé athygli á því í greinargerð með frumvarpinu hvernig kröfur laganna hafa verið útfærðar í reglum First North, að það frumvarp sem hér er til meðferðar miðast við almennar lagareglur sem gilda um markaðstorg fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Eftir hrun hafa heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í óskráðum bréfum verið auknar úr 10% í 20% af hreinni eign. Bent hefur verið á að með þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir hér færu fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna á markaðstorgi fjármálagerninga úr 20% af hreinni eign lífeyrissjóðs í 100% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Leggur meiri hlutinn til að farið verði gætilega af stað og heimildin takmarkist því við 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga, til viðbótar þeim 20% sem þegar er heimilt að fjárfesta í í óskráðum bréfum.

Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið sem fram komu hjá umsagnaraðilum um að rétt sé að heimildin nái einnig til vörsluaðila séreignarsparnaðar.

Það er mat meiri hlutans að auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á markaðstorgi fjármálagerninga verði til þess að auka fjölbreytni fjárfestingarkosta sem lífeyrissjóðum standi til boða á innlendum markaði. Þannig verði mögulegt að auka áhættudreifingu í eignasöfnum lífeyrissjóða.

Meiri hlutinn telur frumvarpið auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem lúta skarpari laga- og regluumgjörð. Það gæti bætt bæði ávöxtun lífeyrissjóða og aukið hagvöxt.

Skort hefur hvata fyrir smá og meðalstór fyrirtæki til að undirgangast kröfur markaðstorgs fjármálagerninga um gagnsæi og upplýsingagjöf en frumvarpið miðar að því að auka þann hvata.

Í því ljósi leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma á þingskjalinu.

Undir álitið skrifa á Alþingi, 25. febrúar 2015, hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, Willum Þór Þórsson framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Pétur H. Blöndal, Unnur Brá Konráðsdóttir, Árni Páll Árnason og Steingrímur J. Sigfússon.