144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég geri heldur ekki neinar athugasemdir við örugga stjórn forseta á fundinum en ég get ekki látið hjá líða að koma í ræðustól vegna þess að ég held að ég verði í forsetastóli á eftir þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason talar hér á eftir, sem er dálítið nýtt að hann geri. En hann hóf þessa umræðu um fundarstjórn forseta og ég veit að kappinn sá mun alveg hiklaust nota bæði tækifæri sín til að koma hérna upp um fundarstjórn forseta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna: Þegar ríkisstjórnin var mynduð 2009 var tekið fyrir í flokksráði Vinstri grænna að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs. Hv. þingmaður greiddi ekki atkvæði á móti því. Á þingflokksfundum var það líka samþykkt, hv. þingmaður greiddi ekki atkvæði á móti því. Og þar inni var að rætt ganga þá leið sem síðan var gengin 2009, að samþykkja þingsályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið. (BÁ: Svipugöngin.)

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason studdi þetta þá í öllum valdastofnunum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. (Forseti hringir.) Hafi hann kærar þakkir fyrir það, alveg eins og varaformaður Framsóknarflokksins á þeim tíma sem samþykkti þetta líka og tveir í viðbót. Voru það ekki tveir í viðbót? (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra þarf ekki að kenna mér neitt um þingsköp. (Forsrh.: Jú.) (Forseti hringir.) En það gæti verið að ég þyrfti að taka hann í kúrs.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða ræðutíma.)