144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér hefur alltaf fundist undarleg þessi umræða um það hvað þingmenn raunverulega meintu með atkvæði sínu. Mér finnst alltaf tilefni til þess að rifja upp 48. gr. í stjórnarskránni, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Það er ekki heldur háð reglum frá núverandi ríkisstjórn, það er ekki háð viðhorfi núverandi þingmanna, það er háð þeirra eigin sannfæringu og það er þeirra að ákveða hver sú sannfæring sé og á hverju hún byggist. Þetta er mjög einfalt, við greiðum atkvæði og það gildir. Þetta er ekki flóknara en það.