144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:42]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt við þessa umræðu sem er athugavert. Hæstv. utanríkisráðherra var í viðtali við Eyjuna um helgina og sagði „þetta Björt framtíð“. Það er sorglegt að verða vitni að svona dónaskap og óþægilegt að verða fyrir honum. Það er ekki sæmandi okkar pólitík að menn tali svona hver um annan, það er ömurlegt. Það rifjast upp fyrir mér orð fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík sem sagði að það að breyta pólitík væri eins og að flytja kirkjugarð, menn fái enga hjálp innan frá. Það er þannig í þessu máli. Í umræðunni hefur stjórnarmeirihlutinn haldið því fram, m.a. hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, að málið hafi verið bremsað af í málþófi síðast þegar það var borið fram. Búið er að leiðrétta það, það er alrangt. Það var rætt hér í fjóra eða fimm daga og síðan afgreitt til nefndar. Hvað skyldi þetta sama mál hafa verið rætt lengi hér árið 2009? Hvað varði málþófið lengi þá? Hafa einhverjir skoðað það? Það var rætt í sex daga þannig að ef fjórir til fimm dagar eru málþóf í skilningi hæstv. utanríkisráðherra, hvað var það þá sem hann tók þátt í hér árið 2009 þegar þetta mál var rætt? Það er þá væntanlega (ÖS: Málþóf dauðans.) ýkt málþóf, já, málþóf dauðans, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég held að ég geti ekki toppað það.