144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur ræðuna. Það var gagnlegt að rifja aðeins upp það ferli sem málið hefur verið í. Sérstaklega þótti mér athyglisverð ábending hv. þingmanns um það að Ísland virtist eiga erfiðara með að fóta sig í þessu ferli en þau 28 ríki sem nú þegar mynda Evrópusambandið. Meðal þeirra ríkja eru fjölmörg fyrrverandi austantjaldsríki, ríki sem litu á Evrópusambandsaðild sem mikilvægan áfanga í átt að betri stjórnarháttum og vænlega til framfara. Þetta voru ríki sem mörg hver voru með veika lýðræðishefð og töldu þetta mikilvægt fyrir framtíð lands síns. Svo geta verið mismunandi skoðanir um hvort það sé rétt mat.

Það er líka mikilvægt að taka til þess að í þeirri þingsályktun sem hér var samþykkt 16. júlí 2009 kemur skýrt fram að þegar samningur liggi fyrir verði hann ekki samþykktur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hinn eðlilegi ferill málsins og hefur verið það að mati þeirra ríkja sem á annað borð hafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég held að sé mikilvægt þegar svo afdrifaríkar ákvarðanir og stórar eru teknar fyrir framtíð eins samfélags.

Það virðist vera að núverandi ríkisstjórn vilji fyrst og fremst ræða málið á einhverjum tæknilegum forsendum, vilji ekki fara í efnisumræðu, þá efnisumræðu sem við getum farið í þegar samningurinn liggur fyrir. Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Af hverju heldur hún að ríkisstjórnin óttist að ræða (Forseti hringir.) efnislegan aðildarsamning við Evrópusambandið?