144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að eftir því sem lengra líður á alla þessa umræðu og fleiri flötum er velt upp finnst mér málið alltaf verða vandræðalegra og vandræðalegra. Það er náttúrlega mjög sérstakt að þurfa að búa við það hér á landi að vera með stjórnvöld þar sem menn eru ekki innbyrðis sammála um hvað stendur í einu bréfi. Hvernig er þetta hægt, virðulegi forseti? Hvernig getur það verið að menn hafi ólíka skoðun á því hvað stendur í bréfi sem er samt sent í nafni ríkisstjórnarinnar? Það er það sem við höfum séð birtast á undanförnum dögum? Það er alveg ótrúlega vandræðalegt og ég skil ekki hvernig menn ætlast til að mark sé tekið á þeim í framtíðinni eftir þetta allt saman.

Svo verð ég að nefna annað sem mér finnst líka alveg ótrúlega vandræðalegt og það er hvernig talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa staðið vaktina hér, sérstaklega Framsóknarflokksins vegna þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa meira og minna verið fjarverandi í umræðunni, fyrir utan formann utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson sem hefur staðið vel vaktina, aðrir þingmenn hafa ekki látið sjá sig í þessari umræðu. Það er bara svo einfalt. Þeir sem það hafa gert hafa komið hingað upp og reynt að halda því fram að formenn stjórnarflokkanna hafi sagt eitthvað allt annað en þeir sögðu í aðdraganda kosninga þegar við erum með viðtöl eftir viðtöl við þá báða þar sem þeir segja mjög skýrt að þeir líti svo á að þjóðaratkvæðagreiðsla verði á kjörtímabilinu til að útkljá málið. Menn reyna að halda uppi einhverjum vörnum gegn því. Hættum því bara. Segið bara hreint út að menn hafi skipt um skoðun og ætli sér að svíkja kosningaloforðið. Það er miklu heiðarlegra en að standa hér trekk í trekk í þessum vandræðalegu vörnum og halda því fram að menn hafi ekki sagt eitthvað sem er vel skrásett, bæði á myndböndum og líka á netinu og víða í fjölmiðlum hvað menn sögðu, meira að segja í útgefnu kosningaefni þessara stjórnmálaflokka. Það er ekki hægt að halda því fram eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir gerði áðan og segja: Ég hef aldrei heyrt formann Framsóknarflokksins segja að greiða eigi atkvæði um þetta og málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þar með hafi það ekki gerst af því að maður hafi ekki heyrt það. Þá er bara ánægjulegt að geta upplýst hana um að þetta er til skráð, á mbl.is 23. apríl 2013 í aðdraganda kosninga, þá sagði hann það beinlínis að flokkurinn hans, Framsóknarflokkurinn, gerði ráð fyrir því að atkvæðagreiðsla færi fram á kjörtímabilinu. Það væri bara óvissa með tímasetningar.

Það er ekki hægt að halda öðru fram og ég held að menn verði aðeins að staldra við og viðurkenna að þeir hafi beinlínis svikið þetta atriði og ætli sér ekki að standa við það í staðinn fyrir að halda uppi svona vörnum sem enginn trúir af því að það gerir að verkum að menn munu ekki trúa öðru sem þeir munu halda fram í náinni framtíð.

Það vandræðalegasta af öllu, finnst mér, er þegar hæstv. utanríkisráðherra fer að munnhöggvast við talsmann Evrópusambandsins eða stækkunarstjóra Evrópusambandsins í fjölmiðlum. Ég skil ekki hvernig utanríkispólitík er rekin í þessu landi, ég bara skil það ekki. Þetta er vandræðagangur frá A til Ö. Ef mönnum finnst eitthvað, af hverju segja þeir það þá ekki hreint út? Af hverju þarf alls konar túlkanir á orð manna? Getur verið að menn geti ekki sagt það hreint út vegna þess að ekki er raunverulegur meiri hluti á bak við þetta mál í þinginu? Getur verið að menn séu að reyna að halda út í einhvern leiðangur til að gera einhvern veginn alla ánægða en klúðra því svona? Hvers vegna sofnaði málið í nefnd á síðasta þingi? Hvers vegna? Getur það verið vegna þess að ekki er samstaða um málið í Sjálfstæðisflokknum? Það er nefnilega þannig. Það er algerlega óþolandi að menn geti ekki talað hreint út heldur standi í þessum vandræðalega leikaraskap.

Það eru orðnar svo miklar innbyrðis þversagnir í allri þessari umræðu. Mér finnst mjög sérstakt að menn skuli tala svona þegar sjá má að hæstv. utanríkisráðherra, þegar IPA-styrkirnir voru kallaðir til baka, hélt því fram í fjölmiðlum 18. ágúst 2013 að ekki væri lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli. Hvers vegna þurfti þá að senda þetta bréf? Man hæstv. ráðherra ekki hvað hann segir milli mánaða? Í ágúst 2013 fullyrðir hann að við séum ekki lengur ríki í umsóknarferli. Þetta er allt einn vandræðagangur vegna þess að menn eru í raun og veru ekki sammála um þetta. Það er bara svo einfalt. Sjálfstæðisflokkurinn veit að atvinnulífið er meira og minna á móti því að þetta verði gert og menn þar vilja klára aðildarferlið og það er einfaldlega þannig að þeir hafa töluverð áhrif á þingmenn innan þess ágæta flokks. Þess vegna leggja menn ekki í að klára þetta og vilja halda því opnu. En þá skulu þeir líka standa hér og vera menn til að segja það.

Svo finnast mér innri mótsagnir í málflutningnum algerar þegar menn halda því hér fram að þetta sé bara „kommonsens“-mál, það sé bara augljóst af öllum gögnum eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði áðan, það sé hið versta mál að ganga í þetta Evrópusamband og augljóst að þjóðin muni hafna því, það sé hennar niðurstaða og þar með hljóti það að vera niðurstaða þjóðarinnar og þurfi ekki að greiða um það atkvæði. En hvers vegna ekki að svara kalli þjóðarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu og leyfa mönnum þá að fella þetta í þjóðaratkvæði? Við hvað eruð þið hrædd? Ef þetta er allt saman svona agalegt þá skil ég ekki hvers vegna menn eru ekki tilbúnir til að halda atkvæðagreiðslu um þetta mál og leyfa þjóðinni að útkljá það. Eða getur það verið, virðulegi forseti, að menn óttist það í þessu eins og í öðru að útkoman verði þeim ekki hagfelld? Getur það verið? Getur það verið að í umræðum um aðild að Evrópusambandinu afhjúpist að ekki sé rekin nein peningastefna í þessu landi? Þegar menn taka ákvörðun um að loka hér dyrum og ef þeir ganga t.d. alla leið einhvern tíma á kjörtímabilinu og ákveða að slíta aðildarviðræðum, sem er augljóslega ekki verið að gera núna, þá er dyrum lokað að gjaldmiðli sem gæti raunverulega virkað fyrir okkur Íslendinga í alþjóðaviðskiptum og kannski valdið því að við gætum losað okkur við verðtryggingu og fengið vexti á húsnæðislán sem eru sambærilegir við það sem gerist hjá öðrum þjóðum o.s.frv. Kannski óttast menn þá umræðu. Óttast menn að það afhjúpist að þeir hafa ekki neina stefnu? Óttast menn að það afhjúpist að t.d. stóra loforðið um verðtrygginguna verður aldrei efnt og menn geta aldrei efnt það vegna þess að þessi umræða mun draga það allt saman upp á yfirborðið? Og ég verð að segja eins og er: Hvílík og önnur eins stjórnun á landi þegar menn taka ákvörðun um að loka einum dyrum sem aðild að Evrópusambandinu er sannarlega og upptaka evru þar með, líklega besti möguleikinn sem við eigum í dag á því að taka upp nothæfan gjaldeyri, án þess að bjóða upp á neinn valkost, án þess að leggja fram heildstæða, trúverðuga stefnu í peningamálum í staðinn. Hún hefur aldrei komið fram. Það er líklega vegna þess að þessi ríkisstjórn er svo upptekin af fortíðinni eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi áðan, að framtíðarsýnin er engin. Hið eina sem menn geta staðið í og komast ekki út úr er einhvers konar uppgjör við fyrri ríkisstjórn og þetta virðist vera einn liðurinn í því. Það er verið að gera upp allar ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar þannig að menn komast ekkert áfram. Hvar endum við ef það er áhersla stjórnvalda? Mér finnst það ábyrgðarhluti hvernig ríkisstjórnin umgengst það vald sem hún hefur, með hvaða hætti verið er að umgangast lög, þingsályktanir og ákvarðanir frá Alþingi. Ég verð líka að segja að hrokinn sem einkennir allt atferli ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) veldur mér verulegum áhyggjum hvernig framhaldið verður út kjörtímabilið.