144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi ágætlega sýnt virðingu sína fyrir samþingmönnum sínum og samflokksmönnum í þingveislunni sl. föstudagskvöld.

En sá háttur að stilla fólki upp gagnvart orðnum hlut í einu málefni og svara því þegar þeir eru gagnrýndir með því að hægt sé þá bara að flytja á þá vantraust er misbeiting, vegna þess að utanríkisráðherra, sem ég hygg að hafi haldið þessu fram, að minnsta kosti hefur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, haldið þessu fram, veit vel að menn eru trúir stjórnmálaflokkum sínum. Auðvitað þarf býsna mikið að ganga á til að þeir steypi eigin ríkisstjórn og þess vegna felur það ekki í sér neinn lýðræðislegan meiri hluta fyrir einni ákvörðun ríkisstjórnar, að hún verði ekki til þess að menn ákveði að steypa ríkisstjórninni allri.

Þetta er, eins og ég held að allir viti sem fylgjast með stjórnmálum, aðferð manna við að kúga ekki bara stjórnarandstöðuna heldur samherja sína. Og ég held að það sem blasir líka við í þessu máli sé að það er ekki bara verið að kúga þá heldur stuðningsmenn aðildarviðræðna við Evrópusambandið, eins og þá sem hv. þingmaður nefndi, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og einnig er verið að kúga þá sem eru sama sinnis um Evrópumálin en telja að þessi framganga sé ákaflega óskynsamleg eins og hún hefur reynst.