144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka að sér hlutverk bæði Hæstaréttar og héraðsdóms hér í þingsal og afgreiða mál á einni mínútu.

Ég kom þó ekki hingað upp til að tala um það heldur til þess að minnast á það að í dag er haldinn aðalfundur Landsbanka Íslands hf. Málefni þessa banka hafa verið mér hugleikin undanfarið og þess vegna lék mér forvitni á að vita hvað þyrfti að koma til til að maður fengi sæti á þessum aðalfundi. Ég lét kanna það fyrir mig, eftir að hafa talað við nokkra málsmetandi menn, og sent var fyrir mig erindi til Landsbankans. Svar Landsbankans var, með leyfi hæstv. forseta:

„Það eru aðallega fyrst og fremst hluthafar og ráðgjafar þeirra sem eiga rétt á að mæta á aðalfundinn.“

Hluthafar og ráðgjafar þeirra, ríkið á 97% í þessum banka. Það er spurning hverjir fara fyrir ríkið, hvort það er fjármálaráðuneytið eða hvort það er fjármálaráðherra eða einhverjir embættismenn á hans vegum.

Áfram segir:

„En auk þess munu nokkrir boðsgestir, svo sem fulltrúar eftirlitsaðila og endurskoðendur bankans, sitja fundinn. Þá er fjölmiðlum boðið sérstaklega á fundinn“.

Síðasta málsgreinin, herra forseti:

„Alþingismönnum er velkomið að sitja fundinn en óskað er eftir því að þeir gefi sig fram á móttökuborði þegar þeir mæta á staðinn og geri grein fyrir sér.“

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég ætla ekki að þekkjast þetta boð, að gera grein fyrir mér á móttökuborði Landsbankans í dag til að sitja aðalfundinn. Ég verð að segja að mér þykir það í meira lagi móðgandi að meðan fjölmiðlamönnum og sérstökum boðsgestum er boðið til þessa fundar skuli alþingismönnum ekki gert kleift eða þeim boðið að sitja þennan fund. Það erum við sem berum ábyrgð á þessum banka þó að hann sé hf., hann er í ríkiseigu, og við hljótum að eiga kröfu til þess að geta fylgst með störfum hans.