144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er yfirleitt allra kvenna hvössust í orðum og kemst að kjarnanum. Mér fannst hún sýna kannski fullmikla mildi þegar hún talaði um að þetta væri magalending hjá hæstv. ráðherra. Mundum við ekki geta fallist á, miðað við það hvernig við notum yfirleitt íslensku til að lýsa atburðum, að þetta væri brotlending? Það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en brotlendingu.

Það sem mig langar til að vekja eftirtekt hv. þingmanns á er með hvaða hætti þetta var undirbúið. Það var vendilega falið hér heima, ákvörðunin tekin á ríkisstjórnarfundi, engum sagt frá, ekki einu sinni þingflokkunum. Síðan er alveg ljóst að búið var að undirbúa góða kynningu á málinu erlendis og heima og áður en búið var að lesa bréfið var því ýtt að öllum, þar á meðal okkur í gegnum fjölmiðla, að það fæli í sér fullkomin slit. Svo gerist það að þegar menn lesa bréfið kemur í ljós eins og hæstv. forseti hefur fyrstur af skyggnu mannviti bent á að orðið „slit“ kemur þar ekki fyrir. Það er reginmunur á bréfinu eins og hæstv. forseti Alþingis benti á og hins vegar slitatillögu. Þá velti ég fyrir mér: Hvert var erindið upphaflega? Hvað segir hv. þingmaður um þá skýringu mína að það hafi í reynd átt að gera tilraun til að plata sérstaklega einn hóp manna, Heimssýn, fólkið sem hefur lagt allt sitt traust á hæstv. ráðherra sem barði bumbur í einfeldni sinni og sakleysi og barnslegri trú á hann og fagnaði? Hvernig heldur hv. þingmaður að þessu fólki líði núna? Ég held að það hafi fyrst og fremst verið hópurinn sem átti að blekkja, ekki við hin. Það átti að reyna að sefa reiði þeirra. Ég lít svo á að þetta sé reiðarslag fyrir þann leiðangur sem Heimssýn hefur staðið fyrir og segi, miðað við ræðu hæstv. ráðherra í gær, að öll gögn málsins liggja fyrir. (Forseti hringir.) Aðildarumsóknin er formlega í gildi en næsta mál á dagskrá er að greiða þjóðaratkvæði.