144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

innheimta útboðsgjalds vegna tollkvóta.

[11:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið gert í minni tíð en ég hef verið upplýstur um að það hafi verið reynt áður og að á þeim tíma hafi komið mismunandi yfirlýsingar um þetta. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, það eru til ýmsar leiðir. Þegar dómur fellur með þessum hætti, þó að það sé líka rétt að ríkið var sýknað af öllum kröfum, dómurinn túlkaði það þannig að gjaldið væri skattur og að ráðherra hefði of mikið vald þar sem það væru tvær leiðir færar í lögum, þarf framkvæmdarvaldið að sjálfsögðu að fara yfir það og skoða það. Það er líka rétt að þær 300 milljónir sem hafa þarna komið inn hafa runnið í ríkissjóð, þetta er í raun og veru aðgangur að takmarkaðri auðlind, við getum sagt sem svo, þar sem takmarkað magn er boðið upp. Hvernig á að fara með það svo jafnræðis sé gætt gagnvart ólíkum aðilum á markaði og hvernig á að taka tillit til þeirra sem eru misstórir á markaði? Á að fara fyllilega eftir því? Það er fullt af slíkum spurningum sem þarf að velta fyrir sér og ég er sammála fyrirspyrjandanum um að það þurfi að gera.