144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[16:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrar athugasemdir sem ég vildi gera við mál hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, einkum í sambandi við málefni Úkraínu og tengd mál. Ég verð að segja að ég deili ekki þeim sjónarmiðum sem mér fannst mega greina í tilvitnuðum orðum hennar í orð sænsks fræðimanns á sviði friðarmála að NATO væri að reyna að draga Úkraínu til sín. Ég held að hér sé um misskilning að ræða vegna þess að ég held að ef litið er til stefnu NATO í þessum málum megi sjá að NATO hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut til þess að reyna að draga Úkraínu til sín. Úkraína hefur ekki sóst eftir aðild að NATO og NATO hefur ekki sóst eftir aðild Úkraínu.

Það er til dæmis dálítið ólík staða upp í öðru nágrannalanda Rússlands, Georgíu, þar sem ráðamenn, bæði núverandi stjórnvöld og eins þau sem áður sátu við völd, höfðu uppi mjög miklar beiðnir til NATO um að fá aðild. Það er ekki staðan í Úkraínu þannig að ég held að ætli menn að draga ályktanir af þessari stöðu byggi það á misskilningi.

NATO er heldur ekki aðili að neinu sem er að gerast í Úkraínu og ekki aðili að neinum viðræðum í því sambandi. Evrópusambandið hefur sent fulltrúa á fundi og Bandaríkjamenn og ýmsir aðrir hafa sent fulltrúa á fundi. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur gert það en NATO (Forseti hringir.) hefur ekki átt neina aðild að þeim atburðum sem þarna eiga sér stað.