144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að hæstv. forseti skuli taka algjörlega af skarið með að það er náttúrlega ekki líðandi að snúa út úr nöfnum stjórnmálahreyfinga sem sitja á Alþingi eða eiga fulltrúa á Alþingi. Það er gott að halda því til haga að rangtúlkanir á nöfnum þeirra eiga ekki að líðast og við sitjum hér öll með lýðræðislegt umboð.

Þá vík ég að öðru. Mér finnst engin vanþörf á því að auka virðingu þingsins og reyna að stuðla að því að þingið fjalli um mál á grunni upplýsinga og fagmennsku. Hér er verið að leggja til stjórnsýslubreytingar. Mörg okkar sem sitjum á þingi sjáum ekki alveg rökin fyrir þessum stjórnsýslubreytingum og búið er að samþykkja að biðja Ríkisendurskoðun um ákveðna úttekt, mat á þessum fyrirhuguðu breytingum. Mér finnst vera góður bragur á því og betra fyrir alla meðhöndlun þessa máls og fyrir þingið allt (Forseti hringir.) að við fáum fyrst svar frá Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) áður en við förum að ræða þetta mál hér.