144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða aðeins húsnæðismálin. Því miður höfum við haft þá stefnu á undanförnum áratugum að hvetja fólk til að skulda í staðinn fyrir að hjálpa þeim til að eignast húsnæði. Það hefur gerst með vaxtabótakerfi og háu lánshlutfalli. Vaxtabætur úr ríkissjóði á undanförnum árum nema svipaðri upphæð og skuldaniðurfærslan á ekki ósvipuðum árafjölda og er lítil umræða um það. En í ofanálag erum við með algjöra sérstöðu í því að við höfum haft hér banka, sérstakan lánabanka um íbúðalán, sem er með ríkisábyrgð. Ríkisábyrgðin núna, virðulegi forseti, nemur 900 milljörðum kr. Það er ein og hálf fjárlög íslenska ríkisins, á meðan t.d. Landsvirkjun er með ríkisábyrgð upp á 250 milljónir.

Nú er sú staða komin upp að það vill enginn vera í viðskiptum við þennan banka. Heildarútlán hjá Íbúðalánasjóði árið 2014 voru um 6%, ef við gefum okkur að engir aðrir láni en viðskiptabankarnir. (LRM: Tala niður bankana.) Rekstartapið er nokkurn veginn sama upphæð og rekstrarkostnaðurinn, 3 milljarðar. Og af hverri krónu sem lánað er út eru 5 kr. greiddar út af því fólk vill ekki vera með lánin sín hjá bankanum. Það sem við höfum sett í skattfé frá árinu 2009 eru 55 milljarðar kr., einmitt inn í þennan banka. Nýr Landspítali kostar samkvæmt nýjustu áætlun 51 milljarð. Við erum búin að setja 4 milljörðum meira í Íbúðalánasjóð. Það sorglegasta í þessu öllu saman er að við gætum komið í veg fyrir þetta. Við þurfum ekki að gera þetta. Það hefur verið skoðað og það liggja tillögur (Forseti hringir.) og skoðanir á því.

Virðulegi forseti. Hér er um stórar upphæðir að ræða. Við þurfum að forgangsraða og við (Forseti hringir.) verðum að hætta starfsemi (Gripið fram í.) Íbúðalánasjóðs.