144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki litið yfir lagabálkana í þessu efni um nokkra hríð og er viss um að hæstv. utanríkisráðherra er miklu ferskari í þessu efni, hefur ábyggilega undirbúið sig vel fyrir þetta frumvarp. Ég veit ekki betur en að það séu nokkuð skýr ákvæði í íslenskum lögum um að ekki megi selja úr landi íhluti, þar með talið þróaða íhluti ef við fellum forrit eða hugbúnað þar undir, til fyrirtækja sem standa í hergagnaframleiðslu þar sem framleiðslan er seld til þeirra ríkja sem eru á einhvers konar svörtum listum og náttúrlega alls ekki til neinna samtaka. Þannig held ég að reglurnar séu. Það var það sem ég átti við með að nú væri sennilega búið að gera múr um EES, en hitt veit ég að sá múr er ekki mjög vel heldur. Mörg ríki í Evrópu hafa umtalsverðar tekjur af útflutningi á vopnum, íhlutum, vopnum sem eru framleidd í heilu lagi og bæði smáum og stórum Til dæmis hefur eitt nýlegt ríki Evrópusambandsins, Króatía, ótrúlega stóran part af sínum útflutningi í formi hergagnaútflutnings. Þessi ríki fara öll, a.m.k. stjórnvöldin í þeim, að settum reglum. En við vitum að það er gríðarleg hefð fyrir vopnasölu í þessum ríkjum, og þar eru ósvífnir menn sem hafa stundað vopnasmygl áratugum saman, mann fram manni, jafnvel virðuleg fyrirtæki sem hafa verið dæmd í háar sektir fyrir nú utan alla hina sem óperera undir yfirborðinu. Ég held því að Ísland sé í miklu betri færum vegna fámennis og þekkingar okkar á næsta nágrenni (Forseti hringir.) okkar til að stöðva og koma í veg fyrir svona en stóru ríkin úti í Evrópu.