144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjármögnun útgjalda til málefna fatlaðs fólks.

639. mál
[20:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur tel ég rétt að rekja aðeins forsögu málsins.

Tilfærsla þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi 17. desember 2010. Áður hafði verið gengið frá samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustunnar frá 23. nóvember 2010, þessi nýja verkaskipting tók því gildi 1. janúar 2011. Samkvæmt samkomulaginu segir að árið 2014 eigi að fara fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar. Enn fremur segir að ef í ljós komi veruleg röskun á forsendum tilfærslunnar skuli teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um nauðsynlega leiðréttingu. Viðmiðunartímabil vegna endurmatsins eru árin 2011–2013.

Vinna við upplýsingaöflun vegna endurmatsins hófst á árið 2013 og á vordögum skipaði ég verkefnisstjórn til að sjá um framkvæmd endurmatsins. Í verkefnisstjórninni eiga sæti auk fulltrúa sveitarfélaganna fulltrúar þriggja ráðuneyta. Vinnu við faglegar úttektir á þjónustunni lauk á síðasta ári.

Varðandi tilfærslu fjármuna vegna breytingar á verkaskiptingu segir í samkomulaginu um fjárhagsramma tilfærslunnar, með leyfi forseta: „Markmið þess var að færa ábyrgðarþjónustuna við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma sem tekur tillit til umfangs verkefna, brýnna þarfa fyrir aðhaldi í opinberum rekstri og sameiginlegra áforma ríkis og sveitarfélaga um að bæta afkomu hins opinbera og skapa þannig forsendur fyrir lækkun skulda.“

Í því skyni að ná fram þessum grunnupplýsingum um mat á fjárhagslegum árangri tilfærslunnar var tekið saman yfirlit yfir tekjur sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þeim árum sem ég nefndi, 2011–2013, inngreiðslna úr ríkissjóði auk framlaga úr svokölluðum fasteignasjóði sem er sjóður sem var stofnaður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að annast fasteignir sem voru nýttar í þjónustu við fatlað fólk við yfirfærsluna og þar á meðal eignir Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Fasteignasjóðurinn tók yfir öll réttindi og skyldur er tengdust þeim fasteignum ásamt öðrum tekjum vegna málaflokksins. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tóku saman yfirlit úr ársreikningi sveitarfélaga um útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks fyrir sömu ár. Þetta leiddi í ljós að heildarafkoma þjónustusvæðanna á rekstrargrunni fyrir árin 2011–2013 var jákvæð um 490 milljónir og samkvæmt því hefur í meginatriðum verið uppfyllt það markmið sem sett var fram í samkomulagi um fjárhagsramma til að tryggja sanngjarnan fjárhagsramma vegna verkefnisins.

Hins vegar er rétt að halda því til haga, fyrst maður er farinn að tala um svona skemmtilega grunna, að þegar afkoman er skoðuð á greiðslugrunni er hún neikvæð um liðlega 540 milljónir og ræðst af því að uppgjör Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á jöfnunarframlögum er framkvæmt á greiðslugrunni. Því vantar einn mánuð í uppgjör sveitarfélaga á viðmiðunartímabilinu en það verður leiðrétt núna á árinu 2015.

Eins og hv. þingmaður fór í gegnum í ræðunni hafa orðið breytingar frá því að málaflokkurinn fór yfir. Verkefnisstjórnin og endurmatið er því að fara yfir ýmsa þætti sem geta haft áhrif á ákvörðun um endanlega útsvarsprósentu sveitarfélaga. Þá er verið að ræða um mat á fjölgun þjónustuþega, mat á mögulegum kostnaðaráhrifum vegna fjölgunar þjónustutíma og breytinga í búsetu þar sem áherslan er á flutning úr sambýli í sjálfstæða búsetu.

Það er líka farið yfir hvað við ætlum að gera varðandi atvinnumál fatlaðs fólks og síðan búsetumálin og vonast er til þess að skýrsla verkefnisstjórnar um endurmatið liggi fyrir nú á vordögum. Í kjölfarið vænti ég þess að fram fari viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um endanlega tekjustofna sveitarfélaga til að standa undir kostnaði við þjónustuna. Því til viðbótar vil ég nefna að árlegur samráðsfundur ríkisins og sveitarfélaganna mun fara fram í þessari viku og þar hefur verið óskað sérstaklega eftir af hendi sveitarfélagasambandsins að félags- og húsnæðismálaráðherra ræði um málefni fatlaðs fólks og húsnæðismálin almennt.