144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni mun ég koma inn á sömu atriði og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Það er í raun dapurlegt að sjá hvernig starfsemi þingsins er þessa dagana. Núna þegar tíminn er orðinn knappur fram að sumri fer ómældur tími í argaþras og leiðindi undir liðnum fundarstjórn forseta. Það sem er dapurlegt við þetta er að þessi liður, þ.e. fundarstjórn forseta, skilar nánast engu. Þar náum við ekki að afgreiða mál sem eru til hagsbóta fyrir landsmenn alla, en fjöldamörg mál bíða þess að komast í 1. umr. hér í þinginu og vera vísað til nefndar til almennrar afgreiðslu.

Það getur ekki annað verið en að þeir hv. þingmenn sem hér starfa heyri það oft utan veggja þingsins að þingið geti verið ómarkvisst og of mikill tími þingmanna fari í þætti sem engu máli skipta þegar öllu er á botninn hvolft. Í þessu samhengi hefur verið vísað í dagskrárliðinn fundarstjórn forseta og þær athugasemdir almennings verðum við að taka til greina.

Það er einnig svo að margir þeirra hv. þingmanna sem koma ítrekað upp undir liðnum fundarstjórn forseta hafa farið stórum orðum um það hversu fáir dagar séu eftir af þinginu og velta því fyrir sér hvernig fara eigi að því að klára þau mál sem bíða afgreiðslu. Á meðan viðhalda sömu þingmenn þessum dagskrárlið í gangi og getur þetta talið nokkrar klukkustundir á viku.

Eigum við ekki að vinna betur saman, koma málefnum á dagskrá og til nefnda, taka þar góðar upplýstar umræður, eins og oft eiga sér stað í nefndum þingsins, þar sem allir þingmenn óháð flokkum þingsins koma að málum, stefna að því að klára þau mál sem skipta máli? Ef okkur tekst ekki að klára þessi mál á áætluðum starfstíma þingsins er að mínu leyti ekkert því til fyrirstöðu að við verðum hér fram á sumarið.