144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur um áhyggjur af stöðu Reykjavíkurflugvallar. Að því sögðu vil ég fagna ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvöllinn á Akureyri og á Egilsstöðum. Í hópnum verða fulltrúar frá Íslandsstofu, Isavia, innanríkisráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, auk fulltrúa frá ólíkum landshlutum. Vinnunni verður stýrt af forsætisráðuneytinu.

Á síðustu árum hefur töluverður þróunarkostnaður verið lagður í að koma á millilandaflugi til og frá Norður- og Austurlandi. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar og mikil þekking liggur fyrir. Í kringum báða flugvellina eru í gangi klasaverkefni með aðkomu sveitarfélaga og fyrirtækja sem miða að því að koma á millilandaflugi, auk þess sem samstarf er á milli landshlutanna. Þessi vinna hefur ekki enn skilað reglulegu flugi, en mikilvægt er að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem þarna er. Eins er mikilvægt að byggja á þeirri þekkingu sem orðið hefur til í kringum reglulegar ferjusiglingar til Austurlands í áratugi.

Tæp milljón ferðamanna kom til Íslands með flugi á síðasta ári og spár gera ráð fyrir mikilli fjölgun á næstu árum. Mikill meiri hluti erlendra ferðamanna heimsækir einungis suðvesturhorn landsins eins og við vitum og aðrir landshlutar njóta fjölgunarinnar í minna mæli. Með aukinni dreifingu ferðamanna um landið má dreifa álagi á náttúru og innviði en um leið skapa tækifæri fyrir fleiri landshluta til að byggja upp víðtækari þjónustu allt árið um kring og styrkja innviði.

Í vinnu hópsins er mikilvægt að mínu mati að skoða þjónustu flugvalla, aðra þjónustu ríkisins, vöruþróun, markaðssetningu og fleira. Ég vænti þess að til verði skýr niðurstaða um hlutverkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila um þessi verkefni, en jafnframt komi fram hvernig best sé að haga samstarfi þessara aðila um nýja fluggátt ef árangur á að nást. Ef vel tekst (Forseti hringir.) til geta þarna skapast tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu að bjóða nýja vöru (Forseti hringir.) fyrir ferðamenn sem vilja koma inn í landið.