144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að Sjálfstæðisflokkurinn muni sjá eftir því að efna ekki þetta loforð, að hann eigi eftir að naga sig allhressilega í handarbökin yfir því að hafa ekki gert það. Manni virðist að með því að efna ekki loforðið gæti orðið til annar flokkur við hliðina á Sjálfstæðisflokknum með það markmið að leiðarljósi að láta reyna á samninga við Evrópusambandið og inngöngu í framhaldinu. Er það betra? Varla fyrir flokk sem telur hagsmunum sínum betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég tel að með þessum þvergirðingshætti og með því að halda að hægt sé að ýta þessu máli einhvern veginn frá þjóðinni og geyma það ofan í kistu séu menn að kalla yfir sig mikla reiði og andúð þjóðarinnar sem, eins og hv. þingmaður kom inn á, vill sem betur fer að mörgu leyti vera meiri þátttakandi í því umhverfi og ákvarðanatöku jafnóðum en áður var.

Ég held að menn verði að horfa svolítið fram á við og horfa í það sem unga fólkið vill í dag. Það sættir sig ekki við að geta ekki haft aðkomu að svo stóru máli sem varðar framtíð þeirra. Öll upplýst umræða í kjölfarið á slíku ferli sem við erum komin í, og verður ekki aftur snúið finnst mér,(Forseti hringir.) verður að halda áfram og það verður að leyfa þjóðinni að hafa síðasta orðið.