144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið ringlaður yfir því nákvæmlega hvar ég á að byrja, mér fannst það óheppilegt, svo að ekki séu notuð sterkari orð, hvernig hv. þingmaður talaði í sambandi við lýðræðið og þá um alla þætti þess.

Hv. þingmaður nefndi að þetta bréf hæstv. utanríkisráðherra hefði verið sent og lítur svo á að viðræðunum sé lokið. Það rímar við það sem var tilætlan hæstv. utanríkisráðherra á þeim tíma en þetta hefur allt verið hið klúðurslegasta mál eins og við þekkjum. Einnig virðist hv. þingmaður ekki gefa neitt fyrir mjög skýran vilja þjóðarinnar. Lögð var fram tillaga af hálfu ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi. Það voru 53.555 manns sem skrifuðu undir í undirskriftasöfnun þess efnis að fá að afgreiða málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru 22,5% kjörbærra manna.

Hv. þingmaður fór einnig yfir það að þingsályktunartillagan væri móðgun við íslenskt stjórnskipulag. Mér finnst það svo kaldhæðnislegt að mér finnst það beinlínis fyndið með hliðsjón af því hvernig hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hafa farið með íslenskt stjórnskipulag. Það er sama hvort við lítum á loforð Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins, undirskriftasafnanirnar, skoðanakannanirnar eða þingferlið sjálft — sú aðferð að slíta viðræðunum á þann hátt sem hæstv. utanríkisráðherra reyndi að gera með þessu bréfi er ólýðræðisleg að öllu leyti með engum undantekningum. Og ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi vilja skoða þjóðarviljann.