144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:53]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar og forláts á því að hafa farið fram yfir tímann og vona að ég nái að skila einhverjum sekúndum hér.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að mér finnst erfitt að setja mig í spámannsstellingar, hvort sem er til að spá fram í tímann eða aftur í tímann. Ég þykist muna að árið 2009 var ástandið í þjóðfélaginu á Íslandi talsvert annað en það er í dag og mikill asi með flest mál, miklar áhyggjur og mikil rústabjörgun í gangi, skulum við orða það. Þannig að ég get ekki eiginlega tekið afstöðu til þess hvað ég hefði gert árið 2009. Mér finnst ekkert ólíklegt að ég hefði stutt þjóðaratkvæðagreiðslu ef spurningin væri að koma upp í dag. En ég er hins vegar alveg með það á tæru að ég hefði aldrei stutt þá hugsun að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið án þess að sú ákvörðun væri á endanum tekin af þjóðinni. Hins vegar tek ég líka alvarlega ábyrgð okkar sem kjörinna fulltrúa á þingi til þess að taka þó ekki nema einhverjar ákvarðanir eins og t.d. þá að hefja vinnu að einhverju. Ég hef trú á því og samþykki að Alþingi hafi fullan rétt og beri fulla ábyrgð á því að hefja vinnu jafnvel að svona stórum málum þó svo að kannski eigi að fara aðra leið til þess að klára þau.