144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það var ekki við því að búast að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fögnuðu tilkynningu forsætisráðherra um afnám hafta og svokallaðan stöðugleikaskatt sem gæti skilað ríkissjóði (Gripið fram í.) hundruðum milljóna kr. Það bjóst enginn við því að fánar yrðu dregnir að húni hjá þeim aðilum, hvað þá að þeir mundu fagna aðgerð sem ætti undir venjulegum kringumstæðum að vera hafin yfir stjórnmála- og dægurþras. Fyrstu viðbrögð snerust almennt um nafnið „stöðugleikaskattur“ og af hverju búið væri að breyta nafninu „útgönguskattur“ sem notað hefði verið í umræðunni. Þetta kallar maður auðvitað að kunna að skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Auðvitað skiptir nafnið á skattinum miklu meira máli en skatturinn sjálfur, tilgangur hans og hverju hann mun skila okkur og næstu kynslóðum.

Þetta er sú málefnalega umræða sem stjórnarandstaða þessa lands býður landsmönnum upp á. Hér vil ég þó að vissu leyti undanskilja nokkra þingmenn stjórnarandstöðunnar, m.a. formann Vinstri grænna, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur sem hefur séð ljósið og tekið undir nauðsyn á slíkum skatti.

Það sem landsmenn þurfa að spyrja og fjölmiðlamenn ættu að spyrja er hverra erinda þessir ágætu stjórnarandstöðuþingmenn ganga. Hvaða hagsmunir ráða því að sumir þeirra hafa á undanförnum mánuðum komið hvað eftir annað upp í ræðustól, kvartað undan málsmeðferð og fundið stöðugleika- eða útgönguskatti flest til foráttu? Það er full ástæða til að skoða þessar ræður sérstaklega og í raun ætti að prenta þær út og dreifa. Þjóðin á kröfu á að vita hver afstaða einstakra stjórnarandstöðuþingmanna er til afnáms hafta. Þetta er vitneskja sem verður að liggja fyrir til að menn geti tekið upplýsta ákvörðun fyrir næstu kosningar. Svörin liggja fyrir í ræðum sem fluttar hafa verið úr þessum stól.

Ágætur varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, kallar viðbrögð stjórnarandstöðunnar við afnámi hafta kómískt leikrit eftir 52 mánaða verkleysi fyrri ríkisstjórnar í grein í Morgunblaðinu í dag. Það má taka undir (Forseti hringir.) þetta. Óli Björn Kárason segir líka, með leyfi forseta:

„Eðli máls samkvæmt hafa áætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám hafta og uppgjör eða slit þrotabúa (Forseti hringir.) bankanna ekki verið gerðar opinberar. Slíkt væri fullkomlega óábyrgt og gæti skaðað (Forseti hringir.) hagsmuni almennings, íslenskra fyrirtækja og ríkissjóðs.“