144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég verð að svara hv. þingmanni á sama hátt og ég svaraði hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur áðan. Aðkoma stjórnvalda hlýtur að velta á því hvernig málin þróast milli aðila vinnumarkaðarins. Það má ekki gleyma því að það eru þeir sem eru að semja. Aðkoma stjórnvalda er fyrst og fremst til þess að gera þeim betur kleift að ná saman. Við erum svo sannarlega reiðubúin til þess, en þá þurfa menn að sjá fram á að það verði samið á þeim nótum að menn nýti tækifærin sem hér eru, ótrúlega mikil tækifæri til að halda áfram að auka kaupmáttinn. Ef það yrði samið á þann hátt að verðbólga færi algjörlega úr böndunum væri ekkert gagn að því að stjórnvöld bættu þar á.

Svo ég svari hinni spurningu hv. þingmanns, um samráðið, hefur það verið talsvert að undanförnu. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og aðrir fulltrúar stjórnvalda hafa hitt aðila vinnumarkaðarins til að fylgjast með gangi mála og meta í hvað stefnir og hvernig aðkoma stjórnvalda geti nýst best.