144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á síðasta sumri heimsótti ég íslenska sjávarútvegsklasann. Þar talaði ég við ungan mann sem rak sprotafyrirtæki og starfaði við að selja makríl sem var tekinn á króka. Hann tjáði mér þá að hann væri kominn í þá stöðu að geta selt slíkan makríl á 5% hærra verði. Það stemmir ekki alveg við það sem sumir hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa sagt hér í morgun, en ég held þess vegna að þetta sé alveg rétt braut sem hv. þingmaður er að hugsa eftir. Það er vel hugsanlegt að hægt væri að taka mun stærri hlut af makríl á grunnslóð og það er hugsanlegt miðað við þetta að hægt sé að fá meira verð fyrir hann. Út frá því er ég sammála því að ef menn á annað borð feta inn á þá braut á að taka frá stærri pott, eða hvað sem menn vilja kalla það, sem hægt er að nota meðal annars til að þróa svona nýjar tegundir af veiðum og hugsanlega vinnslu.

Mér finnst líka, af því að menn tala hér um jafnræði, að menn eigi að horfa til þess að smábátarnir hafa haft miklu, miklu skemmri tíma til að þróa veiðar sínar, (Forseti hringir.) þó að það hafi verið gert með sprengikrafti síðustu ár, en þeir sem eru með stóru skipin en byrjuðu nota bene bara á því að veiða 350 tonn fyrsta árið.