144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:39]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel taka undir það með hv. þingmanni að erfitt sé að þvinga fólk til að hugsa vel um eigur sínar, enda er tilgangurinn hér fyrst og fremst sá að skapa jákvæða hvata, því að þá tel ég að markaðurinn, sem hv. þingmaður ræddi töluvert um í ræðu sinni, muni virka ef menn fá lágmarksvissu fyrir því að það muni skila sér að fjárfesta í eign sinni og fegra hana, að með því séu menn ekki að kasta fjármagni á glæ vegna þess að nágranninn geti haft miklu meira upp úr því að láta sína eign drabbast niður og fá að byggja þar nýtt. Það að menn hafi einhvern lágmarksfyrirsjáanleika lætur markaðinn, held ég, virka betur. Ég mundi halda að hv. þingmaður sé sammála mér um þetta, því að á ýmsum sviðum höfum við séð að þar sem stjórnvöld geta dregið úr óvissu og veitt mönnum einhvern fyrirsjáanleika þar virkar markaðurinn til þess að ýta hlutum í rétta átt. Þetta er sem sagt spurning um að innleiða jákvæða hvata.

Af því að hv. þingmaður nefndi úthverfi og nýrri hverfi vil ég bara taka undir þau orð að slík hverfi geta verið mjög merkileg og sannarlega þess virði að vernda líka heildaryfirbragð þeirra.